Sinovac í áfangamat hjá EMA

AFP

Lyfjastofnun Evrópu hefur hafið áfangamat á kínverska bóluefninu Sinovac en þetta er liður í að fá mögulegt markaðsleyfi í Evrópu.

Bóluefni Sinovac við Covid-19 er framleitt af rannsóknarstofu þess í Peking. Það inniheldur óvirka (dauða) kórónuveiru sem getur ekki valdið sjúkdómnum en aðstoðar fólk við að framleiða mótefni gegn veirunni. 

Ástæðan fyrir því að sérfræðinganefnd EMA um lyf fyrir menn (CHMP) hefur áfangamat á Sinovac byggir á bráðabirgðaniðurstöðum úr rannsóknum gerðum á rannsóknarstofu sem og klínískum rannsóknum. Þær benda til að bóluefnið komi af stað framleiðslu á mótefni sem ræðst gegn SARS-CoV-2, veirunni sem veldur Covid-19, og getur veitt vörn gegn farsóttinni. 

Þegar nægar upplýsingar liggja fyrir getur lyfjafyrirtækið sótt formlega um markaðsleyfi í Evrópu. EMA getur beitt áfangamati til að flýta fyrir matsferli vænlegra lyfja eða bóluefna þegar almenn heilsuvá geisar. Alla jafna þurfa lyfjafyrirtæki að senda inn öll gögn um virkni, öryggi og gæði lyfja áður en mat hefst, en í áfangamati eru gögnin metin eftir því sem þau verða tiltæk.

Kínverska lyfjastofnunin veitti Sinovac markaðsleyfi í febrúar og samkvæmt umfjöllun Politico er þess vænst að Alþjóða heilbrigðismálastofnunin muni ákveða í lok vikunnar hvort það samþykkir það. Sinovac hefur birt mismunandi upplýsingar um virkni bóluefnisins, allt frá 51-82%. 

mbl.is