Meira smitandi en önnur afbrigði

Kórónuveiran.
Kórónuveiran.

Stökkbreytt afbrigði kórónuveirunnar sem dreifist hratt um Indland er mun meira smitandi en önnur afbrigði veirunnar og óttast að það geti brotið sér leið inn fyrir varnarmúr einhverra þeirra bóluefna sem notuð eru baráttunni við Covid-19 að sögn Sou­mya Swam­in­ath­an, yf­ir­manns vís­inda­mála hjá Alþjóðaheil­brigðismála­stofn­un­inni.

AFP

Swaminathan varar við því í viðtali við AFP-fréttastofuna að það sem sé að gerast á Indlandi sýni hversu hratt þetta afbrigði dreifir sér. Yfir fjögur þúsund létust í gær af völdum Covid-19 á Indlandi og yfir 400 þúsund ný smit voru staðfest. Staðan er einna verst í höfuðborg landsins þar sem heilbrigðiskerfið er komið að fótum fram og talið er að tala látinna og smitaðra sé stórlega vantalin. 

Sýnataka í Moradabad.
Sýnataka í Moradabad. AFP

Að sögn Swaminathan er stökkbreytta afbrigðið B.1.617 það afbrigði sem er greinilega helsta ástæðan fyrir þeim hamförum sem heimaland hennar stendur frammi fyrir. Hún segir að mörg afbrigði veirunnar eigi þar hlut að máli en þetta bráðsmitandi afbrigði leiki þar lykilhlutverk. 

WHO setti B.1.617 á lista yfir afbrigði Covid-19 sem fylgjast þyrfti með en hingað til hefur það ekki verið sett á lista yfir þau sem valda áhyggjum hjá stofnuninni. Það er gert þegar afbrigði er talið hættulegra en upprunalega útgáfan af veirunni með því að vera meira smitandi, banvænna eða bóluefni ná jafnvel ekki að stöðva. 

Embætti landlæknis í nokkrum ríkjum, þar á meðal Bandaríkjanna og Bretlands, hafa aftur á móti sett B.1.617 á slíka lista og á Swaminathan von á því að WHO fylgi þar fljótlega á eftir.

AFP

Hún segist eiga von á því að B 1.617 verði sett á válista WHO vegna þess að einhverjar stökkbreytinganna auka líkur á smiti og eins eru líkur á að bóluefnin veiti ekki mótefni gegn smiti þess. Aftur á móti megi alls ekki kenna þessu afbrigði einu og sér um þá miklu aukningu sem hefur orðið í nýjum smitum á Indlandi að undanförnu. 

Swaminathan segir að frekar eigi að horfa til allra þeirra fjöldasamkoma sem haldnar voru í landinu mánuðina á undan. Bæði stjórnmálafunda og trúarsamkoma. Þar á meðal funda sem forsætisráðherra landsins, Narendra Modi, stóð fyrir sem og aðrir stjórnmálamenn. 

AFP

Á sama tíma og margir Indverjar töldu farsóttina að baki, hentu grímunni og slepptu öðrum sóttvörnum var veiran hægt og hljótt á fljúgandi ferð um samfélagið með þeim skelfilegu afleiðingum sem nú sjást. 

Swaminathan segir að í stóru landi eins og Indlandi gerist slíkt auðveldlega og þegar litlar upplýsingar berist um ný smit fái veiran að leika lausum hala. 

„Þetta er farsótt og væntanlega fór hún versnandi,“ segir Swaminathan og bendir á að ekki hafi verið fylgst nægjanlega vel með viðvörunarbjöllunum þegar þær fóru að hringja. Ekki fyrr en of seint. 

Beðið eftir leyfi fyrir áfyllingu á súrefniskúta.
Beðið eftir leyfi fyrir áfyllingu á súrefniskúta. AFP

Eitt af því sem stjórnvöld á Indlandi eru að reyna að gera til að koma böndum á faraldurinn er að auka kraftinn í bólusetningum.

Swaminathan varar við því að það sé ekki nóg að bólusetja til að stöðva framgang faraldursins. Hún bendir á að Indland, sem er stærsti framleiðandi bóluefnis í heiminum, hafi aðeins bólusett um 2% af þeim rúmlega 1,3 milljörðum sem þar búa. „Það mun taka marga mánuði ef ekki ár að komast upp að 70-80% markinu,“ segir hún í viðtali við AFP-fréttastofuna.

Bólusett með Covaxin-bóluefninu í Mumbai.
Bólusett með Covaxin-bóluefninu í Mumbai. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina