B.1.617 komið til á fjórða tug landa

AFP

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) hefur sett stökkbreytt afbrigði kórónuveirunnar, B.1.617, sem greindist fyrst á Indlandi í október, á válista. Það hefur nú greinst í yfir 30 löndum. 

BBC greinir frá þessu og kemur þar fram að bráðabirgðaniðurstöður rannsókna virðist benda til þess að þetta afbrigði dreifist hraðar en önnur afbrigði og það þurfi að rannsaka frekar.

Þrjú önnur stökkbreytt afbrigði eru fyrir á þessum válista WHO; það sem fyrst greindist í Bretlandi, Suður-Afríku og Brasilíu. 

Afbrigði eru sett á þennan válista WHO á heimsvísu þegar það uppfyllir að minnsta kosti eitt þessara atriða: það er bráðsmitandi, alvarlegri veikindi og lyfjagjöf og bóluefni virka síður við afbrigðinu en kórónuveirunni almennt.

Síðasta sólarhringinn voru skráð tæplega 366.200 ný staðfest Covid-19-smit á Indlandi og 3.754 dauðsföll. Þetta er fækkun frá því sem var um helgina en sérfræðingar telja að fjöldi smitaðra og látinna sé stórlega vanmetinn. 

Fjölmiðlar í Andhra Pradesh segja að 11 Covid-sjúklingar hafi látist í nótt í borginni Tirupati eftir að tafir urðu á afhendingu súrefnis til sjúkrahússins þar sem þeir dvöldu.
Indversk yfirvöld segja tengsl á milli B.1.617-afbrigðisins og þeirrar skelfilegu smitbylgju sem nú geisar í landinu en tengslin séu ekki fullrannsökuð.

Í gær greindi yfirmaður heilbrigðismála í Delí frá því að aðeins sé til bóluefni til þriggja eða fjögurra daga í borginni. Alls hafa 34,8 milljónir íbúa Indlands, eða um 2,5% landsmanna, verið bólusettir við Covid-19. 

mbl.is