Von á Playstation 5-leikjatölvum á næstu vikum

Playstation 5-leikjatölvan er uppseld á Íslandi og víðar í heiminum.
Playstation 5-leikjatölvan er uppseld á Íslandi og víðar í heiminum. AFP

Playstation 5-leikjatölvan hefur verið til af skornum skammti um heim allan síðan hún kom út á heimsvísu 12. nóvember síðastliðinn. Íslendingar hafa ekki farið varhuga af þessari þróun og er leikjatölvan uppseld hjá öllum raftækja- og afþreyingarverslunum landsins.

„Sony hefur ekki undan við að framleiða tölvurnar. Við fáum allar okkar tölvur frá Senu sem er umboðsaðili PlayStation á Íslandi og höfum komið öllum þeim tölvum sem við fáum beint í sölu á vefnum þar sem allir hafa jafnan aðgang að því að krækja sér í eintak af PS5,“ segir Arinbjörn Hauksson, markaðsstjóri Elko.

„Það var mikil eftirvænting eftir tölvunni í haust og er enn, en við höfum einungis getað fengið brotabrot af því magni sem við hefðum viljað fá en tölvan hafur verið ein eftirsóttasta varan á leitarvél ELKO síðan hún kom út í haust.“

Elko tók þá ákvörðun að selja leikjatölvuna ekki í forsölu.

„Ákvörðunin stafar einkum af því að við höfum ekki getað lofað viðskiptavinum hvenær afhending á vörunni getur farið fram þar sem magntölur eru einungis staðfestar stuttu fyrir afhendingu á vörunni sjálfri og við töldum það ekki rétt að sitja á fjármunum viðskiptavina í óákveðinn tíma án þess að hafa skýr svör um afhendingu á vörunni. Við leggjum mikla áherslu á skýr og góð samskipti við viðskiptavini þar sem góð þjónusta er í forgrunni og teljum við þetta hafa verið bæði rétta og góða ákvörðun. Þeir sem eru að bíða eftir tölvunni geta skráð sig á póstlista á vörusíðu PlayStation 5 á Elko.is og fá þá meldingu um leið og varan kemur á lager,“ segir Arinbjörn.

Langvarandi vandamál í leikjatölvugeiranum

Bandaríski vefmiðillinn TechRepublic greinir frá því að ýmsar ástæður liggi að baki því hversu fá eintök af Playstation-tölvunni eru í boði. Ein helsta ástæðan fyrir skortinum er talinn vera núverandi skortur á íhlutum í leikjatölvuna eins og örgjörvum en spurn eftir þeim hefur aukist gríðarlega, þar sem þeir eru einnig notaðir í framleiðslu farsíma og snjallbifreiða.

Bloomberg greinir frá því að Sony geri ráð fyrir að takmarkað framboð verði á Playstation 5 tölvunum langt fram á næsta ári. „Það má búast við að þetta verði eitthvað viðvarandi og þetta er ekki bara hér, þetta á við í rauninni allan heiminn,“ segir Ólafur Þór Jóelsson, framkvæmdastjóri heildsölusviðs Senu, en Sena er umboðsaðili Playstation á Íslandi. 

„Góðu fréttirnar eru að það verða einhverjir sem fá vélarnar á næstu tveimur vikunum. Svo erum við á hverjum degi að vinna í samstarfi við Sony að tryggja fleiri vélar til að mæta þessari gríðarlegu eftirspurn sem er á Íslandi fyrir vélunum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert