Kínverjar lenda geimfari á Mars

Kínverskir vísindamenn fagna því að lendingin á Mars hafi gengið …
Kínverskir vísindamenn fagna því að lendingin á Mars hafi gengið að óskum. Ljósmynd/Xinhua

Kínverjum tókst í nótt að lenda geimfari á Mars, en um borð er sexhjóla könnunarfar sem er vonast til að muni senda gögn frá plánetunni næstu þrjá mánuði. Kína er aðeins annað ríkið sem nær þeim áfanga að lenda farsællega á Mars, en áður hefur aðeins Bandaríkjamönnum tekist það. Tilraunir annarra þjóða hafa annað hvort endað með því að geimförin hafa hrapað eða samband við geimförin rofnað við lendingu.

Geimfarið lenti á Utopia Planitia, sem er svæði á norðurhluta Mars. Lendingin átti sér stað 23:18 að íslenskum tíma, eða 7:18 í morgun að kínverskum tíma. Tók það farið 17 mínútur að breiða úr sólarsellum sínum og senda merki til Jarðar sem staðfestu að lendingin hefði tekist.

Sexhjóla könnunarfarið kallast Zhurong, en það merkir eldguðinn. Mun Zhurong nú safna gögnum og taka myndir og vonast vísindamenn til að farið nái því í alla vega 90 Marsdaga, en hver dagur á Mars er 24 klukkustundir og 39 mínútur.

18 mínútur tekur fyrir skilaboð að berast frá Mars til …
18 mínútur tekur fyrir skilaboð að berast frá Mars til jarðar. Kína er aðeins annað ríkið sem tekst að lenda geimfari farsællega á Mars. Ljósmynd/Xinhua

Zhurong er 240 kíló að þyngd og er knúinn áfram af sólarorku. Framan á farinu er stöng með myndavélum ofan á, en fimm mismunandi mælingartæki eru á farinu sem eru meðal annars hugsuð til að kanna grjót og önnur náttúrufyrirbæri á plánetunni.

Xi Jinping, forseti Kína, sendi heillaóskir til vísindamanna eftir að ljóst varð að lendingin hafði tekist. Óskaði hann vísindamönnunum til hamingju með „framúrskarandi árangur“.

Utopia Planitia er sama svæði og Víking-2 farið lenti á árið 1976.

mbl.is