Endurheimta aðeins 1% fjármuna frá netþrjótum

AFP

Einungis um eitt prósent fjármuna sem greiddir eru til netþrjóta fást endurheimtir. Þetta segir Guðmundur Arnar Sigmundsson, forstöðumaður CERT-IS, netöryggissveitar Póst- og fjarskiptastofnunar.

Töluvert er um að netglæpamenn komist yfir kortaupplýsingar fólks eða plati það til að greiða sér fjármuni, til að mynda með því að þykjast vera opinberar stofnanir eða fyrirtæki.

Sem dæmi hafa netþrjótar ítrekað sent út tölvupósti í nafni Póstsins, eins og varað hefur verið við, og þá hafa skilaboð um vinninga í gjafaleikjum á Facebook og Instagram borist frá óprúttnum aðilum sem þykjast vera vefverslanir eða önnur fyrirtæki.

Svikarar sækjast eftir rómantískum kynnum

Einnig eru dæmi um að netþrjótar komist í persónuleg kynni við einstaklinga, jafnvel rómantísk, í gegnum netið og plati þá þannig til að greiða sér fjármuni. Þessir fjármunir skila sér næstum aldrei til baka þegar upp kemst um svindlið.

Guðmundur Arnar beinir því til fólks að ganga úr skugga um að viðkomandi sé raunverulega sá sem hann segist vera áður en fjármunir eru greiddir í gegnum netið. Þá gildi gamla reglan um að ef eitthvað hljómar of gott til að vera satt  sé það líklega tilfellið. Tilkynna eigi slík brot til lögreglu.

Færst í aukana að krefjast lausnargjalds 

Guðmundur segir að netárásir gegn fyrirtækjum og stofnunum þar sem krafist er lausnargjalds hafi færst í aukana á Vesturlöndum síðastliðna mánuði. Um er að ræða árásir þar sem gögn eða kerfi eru tekin í gíslingu og krafist er lausnargjalds til að endurheimta þau eða koma kerfum aftur í gang.

Engar tilkynningar hafa þó borist um slíkar árásir hér á landi það sem af er ári.

Fyrir rúmri viku síðan réðust netþrjótar gegn bandaríska olíuleiðslufyrirtækinu Colonial Pipeline sem leiddi til lokunar olíuleiðslu fyrirtækisins. Leiðslan flytur tæplega helming þeirrar olíu sem notuð er á austurströnd Bandaríkjanna. Colonial greiddi netglæpamönnunum að endingu 5 milljónir bandaríkjadala í lausnargjald, sem jafngildir rúmlega 630 milljónum íslenskra króna.

Þá var tölvukerfi írsku heilbrigðisþjónustunnar lokað tímabundið fyrr í mánuðinum vegna árásar netglæpamanna. 

Ráðleggja að greiða ekki lausnargjald

Ráðleggingar Póst- og fjarskiptastofnunar til aðila sem verða fyrir árásum þar sem krafist er lausnargjalds er að tilkynna þær til stofnunarinnar og að greiða ekki lausnargjaldið, en eins og áður segir hefur ekki verið tilkynnt um neinar slíkar árásir hér það sem af er ári.

mbl.is