Verðlaunuð fyrir greiningarbúnað

Bjarki Fannar Snorrason, Bríet Eva Gísladóttir, Davíð Andersson og Guðrún …
Bjarki Fannar Snorrason, Bríet Eva Gísladóttir, Davíð Andersson og Guðrún Inga Marinósdóttir. Ljósmynd/Aðsend

Verkefnið SEIFER varð hlutskarpast í nýsköpunarkeppni nemenda Háskólans í Reykjavík en um er að ræða búnað til að meta og skrá höfuðhögg íþróttamanna. Þetta kemur fram í tilkynningu.

„Undanfarnar þrjár vikur hafa nemendur Háskólans í Reykjavík spreytt sig á fjölbreyttum nýsköpunarverkefnum í námskeiðinu Nýsköpun og stofnun fyrirtækja. Um er að ræða fjölmennasta nýsköpunarátak landsins en námskeiðið sækja nær allir nemendur HR í lok fyrsta árs. Það felst í því að setja fram og þróa nýja hugmynd að vöru eða þjónustu, gera fjárhagsáætlun, fara í gegnum hönnunarsprett, prófa vöruna og fjármagna hana. Nemendahópar keppa sín á milli um best útfærðu hugmyndina og hlýtur hún Guðfinnuverðlaunin,“ segir í tilkynningu frá HR. 

Í lok námskeiðsins voru þrjár bestu hugmyndirnar valdar og hópurinn í fyrsta sæti hlýtur að verðlaunum 500.000 krónur sem nýta má til að þróa hugmyndina áfram auk þess að hljóta Guðfinnuverðlaunin svokölluðu.

SEIFER búnaðurinn er notaður til upplýsingasöfnunar við höfuðhögg íþróttafólks. Búnaðurinn inniheldur hreyfi-  og hröðunarnema sem mæla meðal annars höggkraft, hröðun og horntíðni höfuðhöggsins. Upplýsingar úr nemunum hjálpa til með að meta alvarleika höggsins og flýta greiningu á mögulegum heilahristingi. Með auðveldari greiningu getur íþróttamaður sem verður fyrir heilahristingi hafið bataferli strax og þannig minnkað líkur á langvarandi afleiðingum. Teymið: Bjarki Fannar Snorrason, Bríet Eva Gísladóttir, Davíð Andersson og Guðrún Inga Marinósdóttir.

Í öðru sæti varð Help! en það er nýtt og betra bjöllukerfi fyrir heilbrigðisstofnanir sem kemur í veg fyrir að önnum kafið starfsfólk þurfi að svara beiðnum sjúklinga án þess að vita hvers eðlis aðstoðarbeiðnin er. Með Help! hugbúnaðinum geta sjúklingar  kallað eftir nákvæmlega þeirri aðstoð sem þeir þurfa og starfsfólk veit hvað á að mæta með á vettvang, hversu áríðandi verkið er og hversu mikið vinnuafl þarf. Help! er einfalt og hentar öllum aldurshópum.Teymið: Ásgeir Örn Jóhannsson, Ólafur Þorsteinn Skúlason, Óliver Haraldsson, Sigríður Þórunn Ragnarsdóttir og Unnur Ósk Gunnlaugsdóttir.

Í þriðja sæti varð VÆR en það er  kolsýrður  drykkur  með  náttúrlegum bragðefnum  og  CBD  olíu. CBD  er  eitt  af  virku  efnunum  í  hamp  plöntunni  en  er  ekki  vímugjafi, heldur bætir heilsu. Varan er fyrir  fólk á aldrinum 25-50 ára, íþróttafólk, fólk sem upplifir  streitu og  kvíða og fyrir fólk  með  ADHD. Teymið: Axel Aage Schiöth, Birgir Snævarr Ásþórsson, Harpa Ægisdóttir og Heiðar Sigurjónsson.

mbl.is