Apple leggur stein í götu Facebook

iOS 14.5 kom út í síðasta mánuði. Þar var kynntur …
iOS 14.5 kom út í síðasta mánuði. Þar var kynntur til leiks stór nýr valmöguleiki fyrir notendur er snýr að friðhelgi einkalífsins. Óhætt er að segja að stjórnendur Facebook séu aldeilis ekki sáttir.

Á dögunum rúllaði tæknirisinn Apple út uppfærslu á iOS-stýrikerfinu sem drífur áfram alla snjallsíma og spjaldtölvur fyrirtækisins. Þar var kynntur til leiks nýr valmöguleiki fyrir notendur sem felst í því að gera þeim kleift að hafna því að forrit geti rakið spor og aflað gagna í öðrum forritum tækisins. 

Hingað til hefur samfélagsmiðlaforritum á borð við Facebook og Instagram (sem er hluti af Facebook) verið kleift að safna gögnum um notendur sína í öðrum forritum en þeirra eigin og notað og selt þær upplýsingar í gróðaskyni.

iOS 14.5. Erfiðara er nú fyrir Facebook að rekja spor …
iOS 14.5. Erfiðara er nú fyrir Facebook að rekja spor og afla gagna í öðrum forritum tækisins. Facebook vill að notendur leyfi það áfram en talið er að um 80% þeirra velji að hafna því. Ljósmynd/Facebook

Skoðanakannanir hafa hins vegar sýnt að allt að 80% notenda muni nú með tilkomu nýja stýrikerfisins banna að rekja spor milli forrita. Þetta segir í ítarlegri grein BBC.

Óhætt er að segja að stjórnendur Facebook séu aldeilis ekki sáttir við þessa nýju uppfærslu enda byggir viðskiptamódel þeirra mikið á gagnasöfnun notenda miðilsins og dótturfélaga þess.

Þeir hafa þegar varað við því að uppfærslan gæti lækkað tekjur auglýsenda um helming og komi mest niður á litlum fyrirtækjum sem nýta sér auglýsingakerfi Facebook til þess að stækka.

Komi niður á veskjum notenda

Einnig telja þeir að þetta verði til þess að fleiri forrit í App Store verði nú gjaldskyld hvort sem það er í formi eingreiðslu þegar maður sækir forritið eða mánaðarlegri greiðslu til að geta notað forritið til fulls, en Apple tekur hluta af öllum greiðslum sem fara í gegn um App Store. Apple sé því með klækjum að reyna að hagnast á uppfærslunni.

Apple hefur þó síðustu ár unnið markvíst að því að bæta öryggi og friðhelgi einkalífs notenda sinna og er uppfærslan því í samræmi við þá stefnu fyrirtækisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert