Heilsa háskólanema versnað í Covid

Sunna Gestsdóttir, sálfræðingur og lektor í heilsueflingu við menntavísindasvið Háskóla …
Sunna Gestsdóttir, sálfræðingur og lektor í heilsueflingu við menntavísindasvið Háskóla Íslands mbl.is/Árni Sæberg

Háskólanemar búa nú almennt yfir verri líkamlegri og andlegri heilsu í samanburði við fyrir faraldur. Hefur kvíði, streita og einmanaleiki einnig aukist ásamt því að svefngæði hafa minnkað.

Þetta kemur fram í niðurstöðum rannsóknar sem var kynnt á líf- og heilbrigðisvísindaráðstefnu á vegum Háskóla Íslands fyrr í dag. Alls tóku 115 háskólanemar þátt í rannsókninni sem fólst í að svara spurningalista sem settur var af stað í janúar á þessu ári. Markmiðið var að meta breytingar á líkamlegri og andlegri heilsu háskólanema vegna yfirstandandi heimsfaraldurs.

Voru nemendur meðal annars spurðir um einkenni kvíða, þunglyndis, sjálfsálits og líkamsmyndar auk þess sem þeir voru beðnir um að meta þætti á borð við einmanaleika, streitu, hreyfingu og svefngæði hjá sér samanborið við fyrir heimsfaraldur. 

Rannsóknin var unnin af Sunnu Gestsdóttur, sálfræðingi og lektor í heilsueflingu við menntavísindasvið Háskóla Íslands, ásamt samstarfsfélögum hennar þeim Erlingi Jóhannssyni, Grétu Jakobsdóttur, Rúnu Stefánsdóttur, Vöku Rögnvaldsdóttur og Þórdísi Gísladóttur.

Niðurstöður í takt við umræður

Sunna Gestsdóttir segir hátt hlutfall þeirra sem meta heilsu sína verri í Covid-ástandinu koma sér á óvart en ríflega helmingur þátttakenda taldi andlega heilsu sína hafa versnað. „Þetta staðfestir bara umræðuna sem hefur verið í samfélaginu en það er umtalað að andlega líðan hafi versnað.“

Jafnt hlutfall kvenna og karla mældist með verri andlega heilsu í samanburði við fyrir faraldur en almennt mældust kvenkyns þátttakendur þó með meiri einkenni kvíða og þunglyndis auk þess sem konur upplifðu meiri einmanaleika og streitu en fyrir faraldurinn.

Minni hreyfing og slakari líkamsmynd

Vakti það athygli rannsakenda að engan mun var að finna á hvernig kynin upplifðu líkamsmynd sína. Segir Sunna þetta áhugavert en þessar niðurstöður eru ekki í samræmi við það sem rannsakendur bjuggust við.

„Karlmenn eru yfirleitt taldir með betri líkamsmynd en konur en þarna sýndu niðurstöður að það var enginn munur á kynjunum.“  

Sunna segist ekki vera með nákvæma skýringu á þessari þróun en hún telur þó mögulegt að rekja megi þessar niðurstöður til verri líkamlegrar heilsu karla. „Maður veltir því fyrir sér hvort þetta tengist því að þeim finnist líkamleg heilsa sín verri í faraldrinum heldur en fyrir. Maður getur bara verið með svona vangaveltur út frá niðurstöðunum.“

Samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar telja 76% karlkyns háskólanema hreyfingu sína hafa minnkað en kyrrseta hefur aukist um rúmlega 70% hjá báðum kynjum.

Fjarnám, kyrrseta og minnkandi svefngæði

Auk andlegrar og líkamlegrar heilsu telur tæplega helmingur háskólanema svefngæði hafa farið minnkandi frá upphafi faraldurs.

Spurð hvað það er sem gæti haft slæm áhrif á svefninn segir Sunna marga samverkandi þætti koma til greina og skipta þá hreyfing og kyrrseta miklu máli. „Þetta helst allt í hendur, en hreyfing hefur náttúrulega jákvæð áhrif á svefngæði.“

Sunna telur fjarnám auka álag á háskólanema og minnka hreyfingu …
Sunna telur fjarnám auka álag á háskólanema og minnka hreyfingu þeirra yfir daginn. AFP

Telur þá Sunna fjarnámið hafa mikil áhrif á líf nemenda og að rútína þeirra ráðist mikið út frá henni.

„Það er náttúrulega meira álag á háskólanema að vera alltaf í tölvunni en allt nám fer nánast fram í gegnum fjarnám, þetta eykur kyrrsetuna. Fólk er bara heima hjá sér allan daginn og margir hverjir með börn inni á heimilinu. Þetta eykur álagið.“

Framhald af niðurstöðum

Í framhaldi af framangreindum niðurstöðum vonar Sunna að hægt verði að bera saman  svefngæði og líkamlega heilsu þátttakenda í faraldrinum við eftir faraldurinn.

Þátttakendur í rannsókninni báru svefn- og hreyfimæli á sér í viku í janúar en rannsakendur stefna á að kalla inn sama hóp og gera sambærilegar mælingar í janúar 2022 eða í haust þegar faraldurinn er vonandi yfirstaðinn.

mbl.is