Geta spáð hversu langt fólk á eftir ólifað

Samkvæmt nýju líkani Íslenskrar erfðagreiningar er hægt að spá fyrir …
Samkvæmt nýju líkani Íslenskrar erfðagreiningar er hægt að spá fyrir um lífslíkur með einni blóðprufu en Kári Stefánsson, forstjóri ÍE, segir að fólk muni ekki koma til með að geta sóst eftir upplýsingum um hvað það á langt eftir ólifað heldur mun líkanið gagnast í ýmis konar meðferðum við sjúkdómum. mbl.is/Hari

Vísindamenn hjá Íslenskri erfðagreiningu (ÍE) hafa þróað líkan sem styðst við mælingar á eggjahvítuefnum í blóði og spáir fyrir um hversu langt fólk á eftir ólifað af mun meiri nákvæmni en líkön sem styðjast við hefðbundna áhættuþætti.

„Það er alveg ljóst að í mynstri eggjahvítuefna í blóði má lesa ýmislegt um líkur á því sem gerist í framtíðinni, meðal annars þeim dramatíska viðburði sem við köllum andlát,“ segir Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, í samtali við mbl.is. Fjallað er um rannsóknina í vísindaritinu Communications Biology í dag. Þjóðbjörg Eiríksdóttir, vísindamaður hjá Íslenskri erfðagreiningu, er einn höfunda rannsóknarinnar og segir hún að með líkaninu verði hægt að meta almenna heilsu nokkuð vel út frá einni blóðprufu. 

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, og Þjóðbjörg Eiríksdóttir, vísindamaður hjá …
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, og Þjóðbjörg Eiríksdóttir, vísindamaður hjá Íslenskri erfðagreiningu, fara fyrir rannsókn sem segir til um lífslíkur fólks út frá eggjagvítuefnum í blóði. Ljósmynd/ÍE/Jón Gústafsson

Mælikvarði á almennan veikleika

Gögn um 22.913 einstaklinga í lífsýnasafni ÍE voru skoðuð en 7.061 höfðu látist á rannsóknartímabilinu. Spálíkanið studdist einungis við upplýsingar um aldur, kyn og mælingar á eggjahvítuefnum en gat spáð fyrir um tíma til dauða af meiri nákvæmni en líkön sem byggjast á þekktum áhættuþáttum. 

Með líkaninu var til að mynda hægt að finna þau 5% úr hópi þátttakenda á aldrinum 60 til 80 ára, sem voru með 88% líkur á því að deyja innan 10 ára, og einnig þau 5% sem voru einungis með 1% líkur.

Með einni blóðprufu er því hægt að segja til um lífslíkur viðkomandi. Kári segir líkanið flott en á sama tíma ógnvekjandi. „Þetta sýnir okkur að almennt heilsufar okkar endurspeglast í eggjahvítuefnum í blóði. „Þetta virðist vera mælikvarði á almennan veikleika,“ segir Kári og bætir við að það muni án nokkurs vafa gagnast í meðferð á fólki. „Ekki bara lyf heldur aðbúnað almennt.“

Fólk með lítinn handstyrk þarf ekki að örvænta

Í niðurstöðum rannsóknarinnar má meðal annars sjá að þeir sem mældust líklegir til að eiga skammt eftir ólifað voru ekki eins handsterkir og hinir og stóðu sig verr á þrekprófi og sýndu lakari árangur í hugrænum verkefnum.

Kári segir fólk með lítinn handstyrk þurfi þó alls ekki að örvænta. „Þetta á rætur sínar í því að handstyrkur er eitt af því sem við mælum í heilsurannsóknum okkar.“ 

Það vekur óneitanlega athygli að hægt sé að nálgast upplýsingar um lífslíkur með einni blóðprufu en Kári segir að fólk muni ekki koma til með að geta sóst eftir upplýsingum um hvað það á langt eftir ólifað. 

„Þetta er ekki próf sem við bjóðum einstaklingum, þetta er mjög ónákvæmt mat, það mælir ekki einstaka þætti vel, þetta er mælikvarði á mannlegan líkamlegan veikleika.“

Sjálfur hefur hann engan áhuga á að vita hversu langt hann á eftir ólifað enda er það ekki það sem spálíkanið snýst um. „Þetta er enginn spádómur í kristalskúlu,“ segir Kári, heldur snýst þetta um að greina hættu á ákveðnum sjúkdómum og hvar fólk er statt. „Þetta er mælikvarði á ástand sem við myndum svo sannarlega viljað geta breytt.“

mbl.is