Hvorki hægt að hægja á né snúa við öldrun

AFP

Ódauðleiki og eilíf æska er ekkert nema hugarburður samkvæmt nýrri rannsókn sem gæti bundið enda á umræður um það hvort manneskjan geti lifað að eilífu. 

Vísindamenn hafa í fleiri áratugi reynt að beisla mátt erfðamengjafræðinnar og gervigreindar til þess að koma í veg fyrir eða snúa við öldrun. 

Ný rannsókn sem birtist á Nature Communications á miðvikudag slær því föstu að líklega sé ekki hægt að hægja á öldrun fólks vegna líffræðilegra hindrana. 

Rannsóknin var framkvæmd af vísindamönnum frá 14 löndum. Fram kemur í niðurstöðum rannsóknarinnar að hraði öldrunar frá fullorðinsárum sé nokkuð meitlaður í stein. 

„Niðurstöður okkar styðja þá kenningu, að í stað þess að það sé að hægjast á dauðanum, lifi fólk mun lengur vegna lægri dánartíni yngra fólks,“ segir José Manuel Aburto, vísindamaður hjá Oxford-háskóla, við The Guardian

„Við bárum saman tölfræði um fæðingar og andlát manneskja og ómennskra prímata og komumst að því að þetta almenna mynstur dauðleika var það sama hjá öllum tegundum. Þetta bendir til þess að líffræðilegir, frekar en umhverfisþættir, stjórni langlífi þegar upp er staðið,“ segir Aburto. 

„Tölfræðin staðfesti, að einstaklingar lifa lengur eftir því sem heilsufarslegar og búsetuaðstæður verða betri sem leiðir til aukins langlífis þvert á alla íbúa. Þrátt fyrir það var hröð hækkun dánartíðni, eftir því sem elliárin urðu fleiri, greinileg hjá öllum tegundum,“ segir Aburto. 

mbl.is