Fleiri tengsl milli krabbameins og kjötáts

Þeir sem vilja lágmarka líkurnar á því að þróa með sér ristil- og endaþarmskrabbamein hafa lengi fengið það ráð að borða minna af rauðu kjöti. Þrátt fyrir það hafa vísindamenn ekki vitað hvað það er nákvæmlega sem veldur og sumir hverjir óvissir um orsakatengsl þarna á milli.

Í nýrri rannsókn sem birtist í fræðiritinu Cancer Discovery hefur vísindamönnum tekist að einangra þær erfðaefnaskemmdir sem birtast í auknum mæli hjá fólki sem borðar mikið af rauðu kjöti.

Gæti styrkt lyfjaþróun

Uppgötvunin ýtir undir þá kenningu að rautt kjöt sé krabbameinsvaldandi en hún getur einnig auðveldað læknum að greina krabbamein snemma og gera betri og virkari lyf.

Fyrri ályktanir voru byggðar á rannsóknum á mataræði þeirra sem þegar höfðu greinst með ristil- og endaþarmskrabbamein. Niðurstöður þessarar rannsóknar voru hins vegar byggðar á rannsóknum á erfðaefnum úr 900 krabbameinssjúklingum úr hópi 280.000 heilbrigðisstarfsmanna.

Þær renna því töluvert styrkari stoðum undir þá tilgátu að rautt kjöt valdi þessu krabbameini.  

mbl.is
Loka