Eru karlar og konur ólík?

AFP

Í byrjun er vert að nefna að konur og karlar eru miklu meira lík en ólík. Þetta á við um alla menningarheima. Þrátt fyrir það getur munurinn haft áhrif á mikilvægar ákvarðanir og útkomu í lífinu eins og t.d. starfsvettvang og líðan.

Stærsti munurinn á konum og körlum er að karlar eru ekki eins samvinnuþýðir (meira keppnisskap, harðari, efagjarnari, minni samhygð, gagnrýnin hugsun, þrjóskir og óháðir). Þessir eiginleikar skýra að einhverju leyti að hlutfallið milli karla og kvenna í ofbeldishneigð og andfélagslegri hegðun er 15 á móti 1. Karlmenn bera ábyrgð á 89% af morðum og 99% af öllum kynferðisafbrotum. Karlar eru 75% allra sem eru með ADHD og 80% af einhverfum eru karlkyns.

Konur eru hærri í neikvæðum tilfinningum og skora hærra á persónuleikanum taugaveiklun. Þær upplifa meiri kvíða, tilfinningalegan sársauka, pirring, sorg, vonbrigði og sjálfsmiðaðar efasemdir og þetta eru allt þættir sem gætu skýrt út af hverju konur eru tvisvar sinnum líklegri en karlmenn til að upplifa þunglyndi. Þær eru líka 75% líklegri til að vera með anorexíu eða búlimíu.

Það er mikilvægt að nefna að munurinn á milli kynjanna finnst oft í öfgunum. Það er ekki meðalaggressífur/minna samvinnuþýður karlmaður sem er í fangelsi. Ef þú myndir draga karlmann og kvenmann tilviljunarkennt úr samfélaginu og giska á að konan væri aggressífari og minna samvinnuþýð myndir þú hafa rétt fyrir þér í um 40% tilvika. En ef þú gengir inn í herbergi með 100 aggressífustu einstaklingum í heimi væri nánast hver einasti einstaklingur karlmaður. Þannig að þó að konur og karlar séu frekar lík en ólík getur munurinn skipt máli.

Einn helsti sálfræðilegi munur á körlum og konum er að karlar hafa meiri áhuga á hlutum og konur meiri áhuga á fólki. Þessi munur sést um leið og barn kemur í heiminn. Nýfæddar stúlkur hafa tilhneigingu til að horfa meira í andlit á fólki á fyrsta degi lífsins en nýfæddir strákar horfa meira á síma. Í bernsku, strax við þriggja til átta mánaða aldur, hafa stúlkur tilhneigingu til að velja sér það að leika með dúkkur en strákar velja sér bolta og bíla. Að sama skapi sýndi rannsókn að 5-6 ára stelpur hafi tilhneigingu til að teikna manneskjur, blóm og fiðrildi í sterkum litum en strákar hafa tilhneigingu til að velja að teikna hluti eins og vopn, ferðatæki og teikna með dimmari litum.

Þú hugsar eflaust að samfélagsgerðin og menningin sé eina ástæðan fyrir þessum mun á áhuga en rannsóknir benda á að svo virðist ekki vera. Ef þú gefur öpum möguleikann á að leika sér með bíla, bolta eða dúkkur, þá velja kvenkyns apar miklu frekar að leika sér með dúkku en karlkyns apar velja að leika sér með bíla eða bolta.

Bestu skýringar sem við höfum á muninum á milli kynjanna er menning og líffræði. Þegar þú minnkar áhrif menningar (með jafnréttissamfélögum), þá fáum við enn skýrari mynd á áhrif líffræðinnar. Fjöldi rannsókna sýnir að því jafnréttissinnaðra land, því meiri munur er á milli karla og kvenna í skapgerð og áhuga. Þetta hefur verið rannsakað í þaula með meta-analýsum, sem eru rannsóknir sem taka saman rannsóknir og sjá heilt yfir hvað rannsóknir á því sviði gefa til kynna. Ástæðan fyrir að við erum að benda á þessar rannsóknir er að því jafnréttissinnaðra sem samfélagið er, því minni munur ætti að vera á milli skapgerðar og áhuga kvenna og karla, en rannsóknir sýna þveröfug áhrif.

Af hverju?

Öll persónuleg þróun á sér stað í samspili milli gena, taugakerfis, atferlis og umhverfis (líkamlegt og félagslegt). Rannsóknir sýna að testósterón virðist skipta lykilmáli um hvort einstaklingur upplifir sig sem karlmaður eða kvenmaður. Heilinn þróast í átt að karlkyni vegna áhrifa testósteróns á þróun taugafrumna eða í átt að kvenkyni vegna þess að testósterón er ekki til staðar. Munur í heilasvæðum karla og kvenna í samspili við magn kynhormóna og þeirra viðtaka í þróun og á fullorðinsárum, er sterklega tengt við mun kynjanna á hegðun og andlegum kvillum.

Rannsóknir sýna að tveir þættir hafa meiri áhrif á karlmenn en konur. Það er virkni dópamíns og testósteróns.

Dópamín: Það er meiri virkni af taugaboðefninu dópamíni hjá mönnum. Það tengist fleiri þáttum eins og sterkum áhuga eða ástríðu sem er lykill að námi, árangri og vellíðan. Dópamín veitir sterka ánægjutilfinningu þegar verðlaunum og árangri er náð. Því er dópamín mótandi þáttur gagnvart ástríðumyndun.

Rannsóknir okkar hafa sýnt að ástríðu megi líkja við stefnu örvarinnar á móti sviði/þema/færni þar sem áhugi liggur. Menn hafa hærra skor á ástríðuskala en konur. Menn hafa einnig sterkara samband milli ástríðu og þrautseigju en konur. Konur hafa hærra skor á gróskuhugarfari og þrautseigju og einnig sterkara samband milli gróskuhugarfars og þrautseigju en menn. Þrautseigja tengist sterkt samviskusemi og sjálfstjórn. Líkamleg hreyfing eykur dópamín, það gerir einnig sterk ástríða. Þess vegna ættu bæði hreyfing og þemu sem kveikja áhuga að vera lyklar allt lífið.

Testósterón: Fræðimennirnir Geschwind og Galaburda sýndu að testósterónhormón, sem drengir hafa að meðaltali 10 sinnum meira af en stúlkur, getur haft áhrif á þróun heilastarfsemi þeirra í fósturlífinu. Þetta gerir drengi að ýmsu leyti viðkvæmari en stúlkur. Þetta er talin ein af meginskýringum þess að drengir eiga oftar í erfiðleikum með málþróun, hreyfiþróun og lestur, það að drengir greinast oftar með einhverfu og ADHD. Aukið testósterón getur þýtt meiri þörf fyrir áhættutöku og hreyfingu. Styttri skóladagur og styttri tímar, sem sagt kerfisbreytingar, er gífurlega mikilvægt til að taka tillit til testósteróns. Það má einnig segja að við ættum kannski að endurskoða þá stefnu að láta börn byrja í skóla sjö ára í stað sex ára. Sem sagt fylgja í fótspor Finna, sem eru meðal fremstu ríkja heims hvað viðkemur árangri nemenda í PISA.

Karlar og konur eru lík en þau eru líka ólík og sá munur getur skipt máli, sérstaklega í öfgunum. Fleiri glæpamenn verða karlar, fleiri verkfræðingar karlmenn, fleiri konur greinast með þunglyndi og kvíða og fleiri hjúkrunarfræðingar verða kvenmenn. Það eru engar sannanir sem benda á að samfélagsgerðin og menningin hafi veruleg áhrif á kyn og kynhegðun. Líffræðin virðist skýra að hluta til muninn á milli kynjanna.

Hermundur Sigmundsson, prófessor við Norska tækni- og vísindaháskólann í Þrándheimi og við Menntun og hugarfar rannsóknarsetur, Háskóla Íslands. 

Bergsveinn Ólafsson, doktorsnemi í sálfræði, fyrirlesari og höfundur bókarinnar Tíu skref í átt að innihaldsríku lífi.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina