Ekkert líf á Venus

Niðurstöður nýrrar rannsóknar benda til þess að ekkert líf geti …
Niðurstöður nýrrar rannsóknar benda til þess að ekkert líf geti þrifist í skýjunum umhverfis plánetuna Venus. AFP

Enginn möguleiki er á að líf þrífist í skýjunum umhverfis plánetuna Venus samkvæmt niðurstöðum frá rannsóknarteymi úr Queen's University í Belfast.

Vísindamenn höfðu haldið í þá von að örverur gætu mögulega fundist í andrúmsloftinu umhverfis plánetuna eftir að gasið fosfín (PH3) fannst þar. Út frá upplýsingum sem fengust með könnunarfari gat rannsóknarteymið metið aðstæður í skýjunum og komust þau að þeirri niðurstöðu að engin þekkt örvera hér á jörðu gæti lifað af í þessum aðstæðum. Svo segir í frétt BBC.

Samkvæmt rannsóknarteyminu er andrúmsloftið of þurrt til að líf þrífist nálægt plánetunni en skýin samanstanda aðallega af brennisteinssýru og örlitlu magni af vatnssameindum. Þyrfti ríflega hundraðfalt meira af vatnshlutfallinu til að halda lífseigustu örverum jarðar á lífi.

Fosfín á Venus vakti athygli

Þegar fréttir bárust af fosfíni á Venus vakti það mikla athygli meðal vísindamanna enda hefur gasið oft verið tengt við einhvers konar lífsform, meðal annars með örverum í þörmum dýra eða í blautlendi og öðrum umhverfisaðstæðum þar sem skortur er á súrefni.

Gasið kemur yfirleitt frá verksmiðjum hér á jörðu en á Venus er hins vegar ekki hægt að útskýra tilveru fosfíns á þeim forsendum. Héldu því vísindamenn að mögulega væri líf þar að finna.

Þrátt fyrir niðurstöður rannsóknarinnar eru vísindamenn ekki tilbúnir að útiloka möguleikann á lífi í skýjum Venus og halda þeir enn í vonina.

mbl.is