Krefjast níu milljarða í lausnargjald

Netþrjótarnir eru taldir starfa á rússneskri grundu.
Netþrjótarnir eru taldir starfa á rússneskri grundu. AFP

Netþrjótar sem brutust inn í kerfi hugbúnaðarfyrirtækisins Kaseya um helgina krefjast nú 70 milljóna dollara, eða tæplega níu milljarða króna, í lausnargjald.

Kaseya veitir hugbúnaðarþjónustu til 40 þúsund fyrirtækja um allan heim og er talið að árásin hafi áhrif á um þúsund viðskiptavini þeirra.

Meðal þeirra eru sænskar matvöruverslanir og hefur sænska stórverslunin Coop þurft að hafa flestar 800 búða sinna lokaðar síðastliðna þrjá daga vegna þess að þær geta ekki notað búðarkassana.

Um er að ræða lausnargjaldsárás (e. ransomware) þar sem netþrjótarnir dulkóða gögn fyrirtækisins og krefjast lausnargjalds fyrir að veita aðgang að þeim á ný.

Hinn alræmdi REvil á bak við árásina

Talið er að rússneskumælandi tölvuþrjótahópurinn REvil sé á bak við árásina, en hópurinn er grunaður um ítrekaðar tölvuárásir.

Meðal annars er hann talinn hafa staðið á bak við árás á alþjóðlega kjötvinnslufyrirtækið JBS í síðasta mánuði sem greiddi að lokum 11 milljónir dala í bitcoin til netþrjótanna.

Ítrekaðar árásir frá rússneskri grundu

Undanfarna mánuði hafa fjölmargar netárásir verið gerðar á bandarísk fyrirtæki sem FBI rekur til netþrjóta sem starfa á rússneskri grundu. Meðal þeirra eru árásir á hugbúnaðarfyrirtækið SolarWinds og olíuleiðslu fyrirtækisins Colonial.

Joe Biden Bandaríkjaforseti ræddi málið við Vladimír Pútín Rússlandsforseta á dögunum og á laugardaginn fyrirskipaði hann rannsókn á árásinni gegn Kaseya.

Biden lét hafa eftir sér að ef árásin hefði verið gerð með vitneskju eða atbeina rússneskra yfirvalda myndu Bandaríkin svara fyrir sig.

mbl.is