Stærðarinnar sprenging reyndist líklega leirgos

Gríðarmikið eldhaf fylgdi gosinu sem vakti upp margar spurningar.
Gríðarmikið eldhaf fylgdi gosinu sem vakti upp margar spurningar. Ljósmynd/Twitter

Stærðarinnar sprengingu sem varð í Kaspíahafi í gær má að öllum líkindum rekja til leirgoss. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Socar, ríkisolíufyrirtæki Aserbaídsjan. 

Gríðarmikið eldhaf fylgdi gosinu sem vakti upp margar spurningar. Leirgos eru þekkt fyrirbæri á þessu svæði í Kaspíahafinu. Talsmaður Socar segir í samtali við APA-fréttastofuna í Aserbaídsjan að leirgosið hafi átt sér stað um tíu kílómetra frá Umid-gasvinnslustöðinni. 

Enginn slasaðist og starfsstöðvar fyrirtækisins urðu ekki fyrir skemmdum í sprengingunni, eða gosinu öllu heldur. 

Leirgos eru landslagsþættir sem myndast þegar samblanda af gasi, vatni og leir safnast saman neðansjávar og leitar svo upp á við með þeim afleiðingum að gos verður þannig að leir og eitraðar gastegundir spúast marga metra upp í loftið.   

Mark Tingay, sérfræðingur í leirgosum og aðjunkt við Háskólann í Adelaide í Ástralíu, segir í samtali við The Guardian að „líklega sé um leirgos að ræða“ þar sem leirgos hafa áður átt sér stað á svipuðu svæði, auk þess sem leirgos í Aserbaídsjan skipta hundruðum.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert