Bjóða upp á pítsur gerðar af vélmennum

Nýopnaður pítsustaður í París býður upp á pítsur sem eru alfarið gerðar af vélmönnum.

Vélmennin fletja út deigið, setja á það sósu, raða áleggjum á pítsuna, setja hana í ofninn og að lokum í kassa og afhenda til viðskiptavina. Vélbúnaðurinn getur framleitt allt að 80 pítsur á klukkustund.

Viðskiptavinir panta á sjálfsafgreiðslukössum og geta svo fylgst með vélunum að verki.

„Þetta er mjög hratt ferli, tímasetningunni er stjórnað fullkomlega og gæðin eru tryggð því vélmennin eru áreiðanleg,“ segir Sebastien Roverso, sem er einn eigenda staðarins og stóð að baki þróuninni á vélunum.

Byrjuðu fyrir átta árum í bílskúr

Sebastien og meðeigandi hans, Cyrill Hamon, eru báðir verkfræðingar. Þeir hófu undirbúningsvinnu fyrir stofnun fyrirtækisins fyrir átta árum í bílskúr fjölskyldu sinnar, en tryggðu sér síðan milljónir evra í fjárfestingar frá sjóðum og fyrirtækjum.

Fyrsti staðurinn var opnaður í úthverfi Parísar árið 2019 og hafa þeir síðan þá viljað koma á fót alþjóðlegri keðju þar sem starfsmennirnir einbeita sér alfarið að þjónustu við viðskiptavini og frágang á borðum.

Þeir munuopna fleiri staði í París á næstunni og á næsta ári ætla þeir að opna stað í Sviss.

mbl.is