Branson fer út í geim í dag

Sir Richard Branson, stofnandi Virgin Galactic.
Sir Richard Branson, stofnandi Virgin Galactic. AFP

Breski viðskiptajöfurinn og lífskúnstnerinn sir Richard Branson mun í dag fljúga í skutlu að mörkum heims og geims, nokkuð sem hann segir að hafi verið draumur sinn alla tíð.

BBC greinir frá.

Branson segir einnig að tilgangur flugsins, sem fyrirtæki hans sjálfs, Virgin Galactic, skipuleggur, sé sá að hann fái forsmekk af upplifuninni áður en hann selur viðskiptavinum sæti um borð í skutlunni.

Skutlan mun hefja sig á loft síðdegis í dag frá Nýju-Mexíkó og mun för hennar, með Branson, tvo flugmenn og þrjá samstarfsmenn hans innanborðs, taka um eina og hálfa klukkustund.

Fylgjast má með fluginu í beinu streymi.

Branson sigurreifur við hlið módels af skutlunni, sem mun ferja …
Branson sigurreifur við hlið módels af skutlunni, sem mun ferja hann og félaga hans að mörkum heims og geims. AFP

Löng bið á enda

Löng bið Bransons eftir slíku flugi er þar með á enda, en hann tilkynnti fyrir 17 árum að hann hygði á flug út í geim. Undirbúningsferlið hefur svo kostað skildinginn, og mannslíf raunar þar sem flugmaður lést í tilraunaflugi árið 2014.

„Mig hefur langað út í geim síðan ég var smástrákur og ég vonast til að geta boðið hundruðum þúsunda annarra að gera hið sama á næstu 100 árum,“ segir Branson við BBC.

Við flugtak eru í raun og veru þrjár samhangandi þotur sem þeyta skutlu Bransons í um 50 þúsund feta hæð. Að því loknu brjóta tvær þotnanna sig frá skutlunni, sem klífur að endimörkum gufuhvolfsins á um 90 sekúndum og allt að 4.000 km/klst.

Branson og félagar ná þá um 100 km hæð, sem gjarnan er sögð vera sú hæð sem gufuhvolfið nær, handan þess tekur svo víðátta geimsins við. Á þeim tímapunkti upplifa Branson og félagar þyngdarleysi um borð áður en þeir steypast til jarðar án nokkurs vélarafls og svífa svo rólega aftur til jarðar í Nýju-Mexíkó.

„Og af hverju ætti ég ekki að fara út í geim?“ segir Branson enn fremur. „Geimurinn er ómótstæðilegur, alheimurinn er magnaður. Ég vil að fólk geti horft til baka og séð fallegu jarðarkringluna okkar og komið heim og unnið hörðum höndum að því að varðveita hana sem best.“

mbl.is