Ósló setur hömlur á leigu rafskúta

Um tuttugu þúsund rafskútur má nú finna til leigu í …
Um tuttugu þúsund rafskútur má nú finna til leigu í Ósló. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Borgarráð Ósló hefur sett takmark á hversu margar rafskútur mega vera til leigu í borginni. Frá og með 1. september verður leyfilegur fjöldi tækjanna minnkaður úr tuttugu þúsund niður í átta þúsund. Þá verður bannað að leigja rafskúturnar eftir klukkan ellefu á kvöldin til klukkan fimm á morgnana.

Fjöldi rafskúta í Ósló er einna mestur miðað við aðrar borgir Evrópu. „Þetta hefur verið óviðunandi ástand í mörg ár í borginni okkar, sérstaklega fyrir þá sem eru blindir, sjónskertir, notast við hjólastól og aldraða,“ segir Sirin Stav borgarfulltrúi.

Norskir læknar greindu frá fjölgun slysa vegna rafskúta í síðustu viku. Í tilkynningu þeirra kom fram að 856 hafi slasast í Ósló vegna rafskútanna frá byrjun árs, 57% slysa gerast á milli ellefu að kvöldi og fimm að morgni.

mbl.is