Íslensk rannsókn vekur heimsathygli

Íslensk vísindarannsókn á sviði blóðmeinafræði vekur heimsathygli. Rannsóknin var alfarið …
Íslensk vísindarannsókn á sviði blóðmeinafræði vekur heimsathygli. Rannsóknin var alfarið framkvæmd á Landspítalanum. mbl.is/Árni Sæberg

Íslensk vísindarannsókn á sviði blóðmeinafræði hefur vakið heimsathygli lækna eftir að nýjustu niðurstöður hennar voru birtar í virta læknisfræðiritinu Blood, 21. maí síðastliðinn.

Í framhaldinu hefur efni hennar verið birt í mest notuðu rafrænu textabók lækna, UpToDate, og einnig hefur verið vakin athygli á niðurstöðunum í leiðara Blood og í The New England Journal of Medicine Journal Watch.

Upplýsingar um rannsóknina koma fram í umfjöllun Landspítalans.

Rannsóknin, sem birtist 20. maí síðastliðinn, fjallar um nýja aðferð til stýringar gamla blóðþynningarlyfsins warfarins. Aðferðin sem er nýtt blóðstorkupróf heitir Fiix-PT og er fundin upp á Landspítalanum.

Niðurstöðurnar í Blood staðfesta fyrri niðurstöður sama rannsóknarhóps sem birtar voru í The Lancet Haematology árið 2015, það er að nýja stýringaraðferðin fækki tíðni blóðtappa um helming hjá sjúklingum sem blóðþynntir eru með warfarini miðað við tíðni í samanburðarhóp sem var stýrt með gömlu aðferðinni.

Páll Torfi er aðalhöfundur en ásamt honum komu að rannsókninni sérnámslæknirinn Alma R. Óskarsdóttir, sem er fyrsti höfundur og lífeindafræðingurinn Brynja R. Guðmundsdóttir auk þriggja lækna.

Rangri aðferð verið beitt í 70 ár

Á bilinu 2-3% Vesturlandabúa eru í dag á langtíma blóðþynningu. Blóðþynningarlyfið warfarín var í áratugi eina blóðþynningarlyfið sem taka mátti um munn en þótt það sé miklu ódýrara hefur það verið á undanhaldi fyrir nýjum blóðþynningarlyfjum sl. 10 ár á Vesturlöndum en þau þykja þægilegri í notkun.

Til þess tryggja árangur og öryggi warfarinmeðferðar er nauðsynlegt að mæla blóðstorkugetu sjúklingsins reglulega og stýra lyfjaskammtinum. Hefur það verið gert í 70 ár með PT (PT-INR) blóðstorkuprófi.

Hefur stýringin á lyfinu verið vandasamt verkefni í gegnum áratugina vegna breytilegra INR niðurstaðna frá einum tíma til annars. En að sögn Páls Torfa Önundarsonar, yfirlæknis blóðmeinafræðideildar Landspítala og prófessors við læknadeild HÍ benda niðurstöðurnar frá Landspítala til þess að að læknaheimurinn hafi notað ranga aðferð við stýringu warfaríns í 70 ár.

Tíðni blóðtappa lækkar um allt að 62%

Tilraunir sem Páll Torfi og Brynja gerðu bentu til þess að gamla PT-INR blóðstorkuprófið gæfi ekki nákvæma mynd af blóðstorknun sjúklinga á warfaríni og að það væri að hluta til orsök óstöðugrar þynningar margra sjúklinga. Nýja blóðstorkuprófið sem íslenska teymið hefur þróað, kallað Fiix-PT (eða Fiix-NR), gefur nákvæmari og skýrari mynd af blóðþynningu sjúklingsins á hverjum tíma.

Í stað þess að mæla þrjá storkuþætti mælir nýja prófið einungis lækkun á þeim tveim storkuþáttum (nr. II og X) sem hindra segamyndun. Telja rannsakendur að þriðji þátturinn, sem kallast storkuþáttur VII, hafi hingað til verið að trufla mælingarnar með þeim afleiðingum að stöðugt þurfti að breyta lyfjaskammtinum sem aftur leidd til óstöðugri blóðþynningar og fleiri blóðsega.

Verkefnið, sem stendur enn, hefur verið rúmlega 12 ár í framkvæmd en fyrstu tilraunir hófust árið 2008. Á þessum tíma hafa Brynja og Páll ásamt samstarfsfólk birt 10 vísindagreinar í virtum tímaritum um efnið.

Á árunum 2012-2014 gerðu þau stóra samanburðarrannsókn sem sýndi fram á 50% fækkun á blóðtöppum hjá þeim sjúklingum þar sem warfarin var stýrt með nýju aðferðinni miðað við þá gömlu. Varð blóðþynningin einnig almennt stöðugri sem gerði það að verkum að lengri tími gat liðið milli blóðprufa hjá sjúklingum þar sem breytileikinn minnkaði.

Í framhaldi af þessari rannsókn var nýja storkuprófið tekið til notkunar á Landspítalanum árið 2016 og var í kjölfarið gerð ný rannsókn þar sem árangur fyrir og eftir var mældur. Þær niðurstöður birtust 20. maí síðastliðinn og hafa nú vakið heimsathygli. Benda þær jafnvel til enn betri árangurs en fyrri rannsóknin, eða að fækkun blóðtappa sé allt frá 55-62% án þess að blæðingatíðni aukist.

Rannsóknin er opin öllum en hægt er að lesa um hana hér.

mbl.is