Þrjú lykilatriði árangurs

Sara Björk Gunnarsdóttir lék með liði Lyon í úrslitum Meistaradeildar …
Sara Björk Gunnarsdóttir lék með liði Lyon í úrslitum Meistaradeildar Evrópu og vann þar sigur á sínum gömlu liðsfélögum í Wolfsburg. AFP

Þrír þættir ráða miklu um að við náum settu marki í lífinu. Þeir eru hugarfar grósku, þrautseigja og ástríða. Hermundur Sigmundsson og Bergsveinn Ólafsson skrifa að með þetta þrennt að leiðarljósi megi yfirstíga margar hindranir.

Samkvæmt okkar bestu vitneskju virðast nokkrir þættir segja til um velfarnað í lífinu. Gáfur eða greindarvísitala leika líklega stærsta hlutverkið í að okkur vegni vel í lífi og starfi. Gáfur einar og sér eru hins vegar ekki nóg og það eru ýmsir aðrir þættir sem eru mikilvægir. Þar ber helst að nefna langtíma þrautseigju (e. grit), sem er að hafa staðfestu í að ná langtímamarkmiðum, gróskuhugarfar (e. growth mindset), sem er undirliggjandi trú á því að þú getir bætt hæfileika, hæfni og gáfur, og ástríða (e. passion), sem er að hafa sterkan áhuga á einhverju þema/færni/sviði sem drífur þig áfram. Þegar þú hefur ástríðu fyrir einhverju ertu tilbúinn til að fara langt umfram vinnuna sem þú þarft til að ná markmiðinu þínu. Í þessu samhengi má segja að trúin flytji fjöll.

Módelið sem við höfum þróað færir rök fyrir því að samblanda ástríðu, gróskuhugarfars og þrautseigju sé blandan að velfarnaði í lífinu. Hægt er að líkja þessum þáttum við ör sem miðar áfram að árangri. Að gróskuhugarfar sé undirliggjandi undir örinni, ástríðan stjórni hvert örin miðar og þrautseigjan ráði hversu öflug og sterk örin er.

Þrautseigja

Dæmi um einstaklinga með þrautseigju og ástríðu eru til dæmis landsliðsfyrirliðarnir í knattspyrnu, Sara Björk Gunnarsdóttir og Aron Einar Gunnarsson. Þú sérð ástríðu þeirra fyrir leiknum inni á fótboltavellinum og þau hafa bæði sýnt mikla þrautseigju á sínum ferli – þar sem fótbolti og íþróttir almennt yfirhöfuð innihalda ótal hindarnir og áskoranir og mistök eru óhjákvæmileg. Snar þáttur í því að Sara og Aron hafa náð svona miklum árangri í fótbolta er þeirra brennandi ástríða og þrautseigja.

Hermundur er prófessor við Norska tækni- og vísindaháskólann í Þrándheimi …
Hermundur er prófessor við Norska tækni- og vísindaháskólann í Þrándheimi og Menntun og hugarfar rannsóknarsetur við Háskóla Íslands. Kristinn Magnússon

En er hægt að þjálfa þrautseigju? Rannsóknir benda til að gróskuhugarfar leiki þar stórt hlutverk eða sé undirliggjandi þáttur fyrir þrautseigju. Einstaklingar með gróskuhugarfar trúa því að meðfæddir hæfileikar séu ekki allt og að þeir geti bætt færnina og þekkingu sína í hverju sem er. Aðrir einstaklingar eru með festuhugarfar (e. fixed mindset) og þeir trúa því að meðfæddir hæfileikar séu allt og að þeir séu annaðhvort góðir í einhverju eða ekki. Þrautseigjan má segja að tengist því að gefast aldrei upp.

Gróskuhugarfar

Það er töluverður munur á hvernig einstaklingar með gróskuhugarfar og festuhugarfar líta á aðstæður, hugsa og haga sér. Einstaklingar með gróskuhugarfar einblína á erfiði sem þátt í að láta niðurstöðuna verða að veruleika, að læra af mistökum og að taka mið af uppbyggilegri gagnrýni. Þeir líta á hindranir og áskoranir sem tækifæri til að vaxa og þroskast. Þó svo þau hafi ekki hæfnina til að takast á við áskorun sem þau standa frammi fyrir eins og staðan blasir við þeim, þá trúa þau að þau muni geta tæklað áskorunina á endanum. Þessir einstaklingar tala um áskoranir en ekki vandamál. Einstaklingar með festuhugarfar einblína hins vegar frekar á niðurstöðuna umfram erfiðið sem lætur niðurstöðuna verða að veruleika, þora ekki að gera mistök því þá finnst þeim þeir sjálfir vera mistök, vilja ekki fá gagnrýni og eru líklegri til að gefast upp ef þeir mæta hindrunum eða áskorunum. Á meðan einstaklingar með gróskuhugarfar einblína á það að bæta sig þá verja einstaklingar með festuhugarfar mikilli orku í að reyna líta vel út.

Bergsveinn er doktorsnemi í sálfræði, fyrirlesari og höfundur bókarinnar Tíu …
Bergsveinn er doktorsnemi í sálfræði, fyrirlesari og höfundur bókarinnar Tíu skref í átt að innihaldsríku lífi.

Þið sjáið því að lykillinn er að temja sér gróskuhugarfar – einstaklingar sem læra af mistökum, leggja hart að sér, taka uppbyggilegri gagnrýni og halda áfram þó svo það reyni á, eru margfalt líklegri til að ná árangri. En hvernig gerir maður það? Ein leiðin er að segja við sjálfan sig „ekki enn þá“ þegar maður stendur andspænis áskorun: „Ég get þetta kannski ekki enn þá, en ég mun geta það seinna.“ Önnur leið er að hrósa sjálfum sér og öðrum fyrir erfiðið sem stuðlaði að útkomunni, en ekki bara útkomunni sjálfri. Það er sérstaklega mikilvægt að hrósa börnum fyrir erfiði sem þau leggja á sig – þá ertu að styðja við þá hegðun að þau leggja á sig, en ekki niðurstöðuna. Ferillinn er lykillinn – styrkjum hann.

Ástríða

Hvað varðar ástríðuna, þá er lykillinn að finna sína ástríðu eða sterkt áhugasvið með því að þróa hana. Margir halda að ástríðan komi allt í einu til manns en rannsóknir benda á að mögulega þróir þú hana í staðinn fyrir að uppgvöta hana á einu augnabliki. Rannsóknir á frumkvöðlum sýna að því meira sem þeir leggja í frumkvöðlafyrirtækið, því meira vex ástríðan þegar þeir þróa fyrirtækið í hverri viku. Ástríðan þróaðist þegar þeir öðluðust meiri leikni. Þess vegna þarf maður að vera duglegur að prófa nýja hluti þegar maður finnur að maður hafi ekki ástríðu í lífinu. Ástríðan kemur því sem afleiðing af því að þú prófaðir eitthvað eða sýndir dugnað og þrautseigju í að takast á við það. Ástríða leiðir ekki alltaf til erfiðis og hæfni, heldur kemur hún stundum sem afleiðing af því. Með því að fjárfesta í lærdómi þá getum við þróað í okkur ástríðuna og byggt upp þá hæfni sem þarf til þess að vinna og leiða lífið sem okkur finnst þess virði að lifa. Það er nefnilega ansi léleg uppskrift að gefa sér fyrirfram hvort manni muni líka vel við eitthvað áður en maður hefur prufað það.

Með gróskuhugarfari, þrautseigju og ástríðu að leiðarljósi eykur þú stórlega líkurnar á að þú verðir sá einstaklingur sem þú vilt verða, eigir lífið sem þú vilt lifa og yfirstígir hvað sem er til þess að láta það verða að veruleika. Kýldu á það!

Hermundur er prófessor við Norska tækni- og vísindaháskólann í Þrándheimi og Menntun og hugarfar rannsóknarsetur við Háskóla Íslands. Bergsveinn er doktorsnemi í sálfræði, fyrirlesari og höfundur bókarinnar Tíu skref í átt að innihaldsríku lífi.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert