Hristingur vélhjóla skaðar iPhone síma

Apple mælir gegn því að fólk festi iPhone-símana sína við …
Apple mælir gegn því að fólk festi iPhone-símana sína við bifhjól með þar til gerðum statífi. mbl.is/Ómar Óskarsson

Eigendum iPhone-síma er ráðið frá því að festa þá á vélhjól þar sem titringur hjólanna kunni að skemma viðkvæman búnað innan í myndavélum símanna. Þetta kemur fram í viðvörun frá Apple framleiðanda iPhone-símanna.

BBC greinir frá

Hristingur hjólanna getur eyðilagt innbyggða hristivörn (e. optical image stabilization) á linsum símans sem gerir myndbandsupptöku stöðugri. Auk þess getur skjálfti vélhjóla skaddað fókus-búnað myndavélanna.

Á einnig við um létt bifhjól og vespur

Eigendum léttra bifhjóla og vespna er einnig ráðlagt að nota festingarbúnað með einhvers konar dempara fyrir símanna til þess að lágmarka skaða af völdum titrings vélanna. 

Einhverjir vélhjólamenn hafa kvartað yfir því á samfélagsmiðlum að myndavélar símanna séu gjöreyðilagðar eftir stuttan túr á hjóli.

Sá hluti myndavélanna sem fer illa út úr skjálfta vélhjóla er hannaður til þess að bæta stöðugleika linsanna og gera símanum kleift að ná skýrari og betri myndum við erfiðar aðstæður. Vélhjól geta því hrist símann svo mikið að virkni og næmni þessa búnaða minnki sem kemur niður á gæðum mynda og myndbanda. 

mbl.is