Mun líklegri til að draga reykingafólk til dauða

mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Fólk sem reykir er 60-80% líklegra til að vera lagt inn á spítala sökum kórónuveirusýkingar og einnig líklegra til að deyja af völdum sjúkdómsins.

Þetta sýna niðurstöður nýrrar rannsóknar, þar sem tekin voru saman gögn úr bæði athugunum og genarannsóknum á tengslum reykinga og Covid-19 sjúkdómsins.

Niðurstöðurnar eru þvert á það sem önnur rannsókn í upphafi faraldursins hafði sagt til um, en hún gaf til kynna að reykingar gætu hjálpað til við að verjast veirunni.

Sú rannsókn var þó síðar dregin til baka eftir að í ljós kom að nokkrir höfundar hennar höfðu fjárhagsleg tengsl við tóbaksiðnaðinn.

Líklegra til að láta lífið

Ashley Clift, doktor við Oxford-háskóla, sótti ásamt kollegum sínum heilsufarsgögn til heimilislækna, niðurstöður kórónuveiruprófa, gögn um innlagnir á sjúkrahús og svo dánarvottorð til að bera kennsl á tengsl reykinga og kórónuveirusjúkdómsins.

Gögnin voru fengin frá fleiri en 420 þúsund manns, sem þegar höfðu gengist undir genagreiningu, að því er fram kemur í umfjöllun breska dagblaðsins Guardian.

Í samanburði við þá sem aldrei höfðu reykt, var reykingafólk allt að 80% líklegra til að vera lagt inn á sjúkrahús vegna veirunnar, og mun líklegra til að láta lífið af völdum sjúkdómsins ef það á annað borð sýktist.

mbl.is