Hoppum af stökkbrettinu og eflum styrkleika okkar

Mörg dæmi eru um að það að hafa ástríðu og styrkleika á einu sviði geti verið nóg til að öðlast gott og innihaldsríkt líf, skrifar Hermundur Sigmundsson og bætir við að mikilvægt sé að spyrja ungt fólk um áhugasvið þeirra og hjálpa þeim að eflast og ná flugi:

Áskoranir: Stöðugt fleira ungt fólk á erfitt með að finna hvað það vill takast á við í lífinu. Hvaða menntabraut á ég að feta? Á ég að fara í iðnnám og þá hvaða iðn, smíði, bakstur, hárgreiðslu, fatahönnun...? Eða á ég að fara í nám þar sem stúdentspróf er markmiðið? Með stúdentspróf í farteskinu, hvaða háskólanám verður þá fyrir valinu?

Svo er það hópur sem dettur út úr framhaldsskóla; 32% drengja, 22% stúlkna og 62% innflytjenda. Oft má rekja þeirra áskoranir til þess að grunnskólanámið gekk ekki vel. Margar ástæður geta hafa valdið því; slæm lestrarkunnátta, vöntun á áskorunum miðað við færni þannig að flæði næst ekki, kvíði, leiði, vöntun á þjálfun og/eða vöntun á eftirfylgni, bæði frá foreldrum/forráðamönnum og kennurum. Norskar rannsóknir sýna fram á sterkt samband milli árangurs í grunnskóla og hverjir ljúka framhaldsskóla.

Hermundur Sigmundsson fjallar um mikilvægi þess að hugarfarið sé rétt …
Hermundur Sigmundsson fjallar um mikilvægi þess að hugarfarið sé rétt og að sýna þrautseigju. mbl.is/Kristinn Magnússon

Vísindi: Kenning Edelmans sýnir okkur mikilvægi sérhæfðrar þjálfunar í að byggja upp þekkingu og færni. Með sérhæfðri þjálfun styrkist samband milli taugafrumuhópa. Við segjum oft að „snaginn“ styrkist (e. „use it and improve it“). Snaginn er þá taugafrumutengingar. Snaginn getur verið lítill eða stór og allt þar á milli. Við förum frá yfirborðsþekkingu til djúprar þekkingar. Þar eru markviss þjálfun, eftirfylgni og „mentor“ í lykilhlutverki.

Innan lýðheilsu er einnig mikið rætt um að einbeita sér að og efla styrkleika hjá einstaklingum.

Möguleikar: Rannsóknir sýna að ástríða (e. passion) eða sterkur áhugi er lykill að árangri og velgengni. Þrautseigja eða seigla skiptir þar líka miklu máli. Þrautseigja tengist sterkt sjálfsaga og samviskusemi. Carol Dweck, sem kom með kenningu sína um hugarfar (e. mindset) árið 1988, segir að lykilatriði sé fyrir foreldra/forráðamenn að hjálpa barninu/unglingnum að finna sitt áhugasvið og styrkja ferilinn.

Mörg dæmi eru um að það að hafa ástríðu og styrkleika á einu sviði getur verið nóg til að öðlast gott og innihaldsríkt líf. Charles Darwin, einn af fremstu vísindamönnum heims, er gott dæmi um einstakling þar sem foreldrar höfðu miklar áhyggjur af skólagöngu hans. Hann hafði lítinn áhuga á skólanum en hafði snemma mikla ástríðu fyrir náttúrunni... Hann safnaði bjöllum, festi þær á stór spjöld og merkti með nöfnum. Hann veiddi fisk og ekki nóg með það; hann teiknaði fiskana, mældi lengd þeirra og viktaði. Styrkleikar hans lágu á sviði athugunar (e. observation) sem kom að góðum notum þegar hann fór í siglinguna með HMS Beagle í fimm ár (1831-1836). Á því ferðalagi var grunnur að þróunarkenningunni lagður.

H.C. Andersen er annar framúrskarandi einstaklingur þar sem sterkur áhugi fyrir leiklist, söng og dansi frá unga aldri lagði grunninn að ævintýrum; Litli ljóti andarunginn; Nýju fötin keisarans... sem eiga engan sinn líka. Þrátt fyrir mikla fátækt, erfiða æsku og litla skólagöngu var sterk ástríða lykill að velgengni. Þannig mætti lengi telja einstaklinga sem þrátt fyrir að hafa ekki sýnt mikinn áhuga á skóla eða átt langa skólagöngu að baki hafa samt sem áður náð framúrskarandi árangri á því sviði þar sem þeirra ástríða lá.

Við sem foreldrar og skólar landsins fylgjum ráðum Carol Dweck og spyrjum börn og unglinga hver áhugasvið þeirra eru og hjálpum þeim að efla þau. Einblínum á styrkleika einstaklinga, en dæmin sýna að það getur stuðlað að frábærum árangri. Við getum hugsað okkur leiðina að því að efla áhugasviðið eins og leiðina upp á stökkpallinn: Fyrst er bratti stiginn upp, þjálfunarfasinn, sem krefst bæði sterks áhuga, þrautseigju og eftirfylgni. Þegar upp á brettið er komið er maður orðinn mjög góður á því sviði/þema/færni sem búið er að vinna með yfir langan tíma. Þá geta stórir hlutir gerst þegar brettið byrjar að dúa og við tökum stökkið.

Finndu ástríðuna og þróaðu hana!

Hermundur er prófessor við Norska tækni- og vísindaháskólann

í Þrándheimi og við Menntun og hugarfar – rannsóknasetur við Háskóla Íslands.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert