Breytingar í vændum hjá Google

Sundar Pichai, forstjóri Google, segir fyrirtækið hyggjast leggja sitt af …
Sundar Pichai, forstjóri Google, segir fyrirtækið hyggjast leggja sitt af mörkunum til að stemma við loftslagsbreytingum. AFP

Google boðar breytingar á forritum fyrirtækisins sem eiga að stuðla að bættri umhverfisvitund notenda forritanna í daglegu lífi og stemma stigu við loftslagsbreytingum. Frá þessu greindi Sundar Pichai, forstjóri fyrirtækisins, á blaðamannafundi í dag.

Google er eitt þeirra stórtæknifyrirtækja sem hafa fjárfest í því að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum starfsemi þeirra, t.d. með því að gera gagnaver sín kolefnishlutlaus.

Breytingarnar auðveldi m.a. notendum að velja akstursleiðir sem leiði til minni útblásturs og kaup á orkusparandi tækjum á netinu.

„Markmið okkar með þessum breytingum er að ýta undir sjálfbærni notenda,“ segir Pichai.

Telur mikilvægt að bregðast strax við

Með aðstoð gervigreindar geta notendur Google Maps í Bandaríkjunum nú þegar valið um sparneytnustu leiðirnar á áfangastað. Þær séu leiðir séu þó ekki endilega þær stystu, að sögn Picai.

„Forritið sýnir nú sjálfkrafa þá leið sem krefst minnstrar eldsneytiseyðslu en hefur svipaðan komutíma og aðrar leiðir sem krefjast meiri eldsneytiseyðslu.“

„Við trúum því að breytingarnir muni hafa sömu umhverfisáhrif á næstu árum og ef 200.000 bílar væru teknir úr umferð,“ segir hann.

Breytingarnar munu taka gildi í Evrópu árið 2022.

Fyrirtækið hyggst stíga fleiri skref til að stemma stigu við loftslagsbreytingum, til að mynda með því að nota gervigreind til þess að hámarka skilvirkni umferðar í borgum og stytta biðtíma bíla á gatnamótum, bæta upplýsingagjöf um umhverfisvæn hótel og gistiheimili og um losun koltvísýrings frá flugumferð.

„Þessar breytingar virðast kannski smávægilegar en saman munu þær hafa mikil áhrif á afdrif jarðarinnar. Við þurfum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að draga úr afleiðingum loftslagsbreytinga og við þurfum að bregðast við strax.“

mbl.is