Kveikjum neistann - mikilvægi bókasafna og samstarfs skóla

Bókasafn Vestmannaeyja er í samstarfi við verkefnið Kveikjum neistann.
Bókasafn Vestmannaeyja er í samstarfi við verkefnið Kveikjum neistann.

Bókasafn Vestmannaeyja tekur nú þátt í verkefni undir yfirskriftinni Kveikjum neistann með það að markmiði að ýta undir lestur barna og unglinga. Hermundur Sigmundsson, Svava Þ. Hjaltalín og Kári Bjarnason skrifa um mikilvægi lestrar til að ná árangri í lífinu.

Það er staðreynd að lestur er lykillinn að því að finna alla aðra lykla í námi, þekkingarleit og þekkingarþróun. Lestur er þannig lykill að menntun sem er sjálfur lykillinn að framtíðinni. Það geta allir, börn, unglingar og fullorðnir, öðlast dýrmætar ánægju- og þroskastundir við bóklestur. Bókmenntaþjóðin þarf að nýta þá möguleika sem hún hefur til að skapa aukinn áhuga fyrir lestri bóka jafnt hjá börnum sem fullorðnum. Greiður aðgangur að skemmtilegum og fræðandi bókum er mikilvægur og þar gegna bókasöfnin lykilhlutverki sem nokkurs konar heimili bókanna.

Áskorun:

Bætum stöðu íslenskra barna. Niðurstöður kannana meðal leikskólabarna í Hafnarfirði sýna að um það bil 40% þeirra eru í áhættuhópi hvað viðkemur málþróun. Eftir 2. bekk í grunnskóla sýna niðurstöður úr Reykjavík að 40% barna eru ekki læs. 26% 15 ára unglinga skilja ekki þann texta sem þeir lesa, 34% drengja og 19% stúlkna. Brottfall úr framhaldsskólum er einnig hátt á Íslandi eða 31% drengja, 22% stúlkna og 62% innflytjenda. Hvað brottfall nemenda í háskóla varðar er kynjahlutfallið hæst hér á landi í löndum OECD en það sýnir að 70% þeirra eru stúlkur og 30% drengir. Þetta er gífurlega alvarleg staða sem hrópar næstum út í tómið. Stjórnmálamenn ræða því miður lítið eða ekkert um vandann eins og kom klárlega fram í aðdraganda kosninga sem haldnar voru 25. september sl.

Vísindi:

Fremstu fræðimenn í heimi benda á þjálfun sem lykil númer eitt til að bæta lestrarfærni og lesskilning barna og unglinga. Lestur bóka, þjálfun skapandi skrifa og framsögn eru þar mikilvægust. Heikki Lyytinen, einn fremsti fræðimaður Finna og í heiminum í lestrarkennslu byrjenda, segir ástæðuna fyrir góðum árangri þeirra í lestri samkvæmt PISA frá árinu 2000 vera öflug bókasöfn í bæjum og borgum ásamt góðum skólabókasöfnum. Bókasöfn eru tæki til að skapa menningu og áhuga fyrir lestri bóka, þau gegna lykilhlutverki við að finna bókina sem lesandinn þarf eða vill hverju sinni.

Hermundur Sigmundsson er prófessor við Norska tækni- og vísindaháskólann í …
Hermundur Sigmundsson er prófessor við Norska tækni- og vísindaháskólann í Þrándheimi og við Menntun og hugarfar – rannsóknasetur við Háskóla Íslands. Kristinn Magnússon

Möguleikar:

Til að að skapa áhuga á lestri er mikilvægt að finna réttar bækur og annað lestrarefni. Jafnframt þarf að bjóða réttar áskoranir miðað við færni á hverjum tíma og taka tillit til áhugasviðs hvers og eins. Bókasöfnin í skólum og bæjarfélögum geta og eiga að vera gullnáma fyrir börn og unglinga, undraveröld sem opnar sífellt nýjar og nýjar víðáttur.

Svava Þ. Hjaltalín er grunnskólakennari og verkefnastjóri við Menntun og …
Svava Þ. Hjaltalín er grunnskólakennari og verkefnastjóri við Menntun og hugarfar – rannsóknasetur við Háskóla Íslands.

Samstarf

Bókasafn Vestmannaeyja er í samstarfi við Kveikjum neistann, sem er langtíma þróunar- og rannsóknarverkefni í Grunnskóla Vestmannaeyja á vegum Rannsóknarsetursins menntun og hugarfar við HÍ í samstarfi við Samtök atvinnulífsins (SA). Bókasafnið stendur óvenjulega vel að vígi til að koma inn sem öflugur samherji í liðsheildina því yfir 15.000 titlar eru skráðir sem barnabækur í Gegni, auk þess fjöldi bóka meðal um 100.000 bóka safnsins sem geta kveikt áhuga barna og unglinga og virkjað þau á þann hátt til lestrar. Bókasafn Vestmannaeyja hefur ævinlega keypt meginþorra þeirra barna- og unglingabóka sem út koma á hverju ári en í tilefni af verkefninu Kveikjum neistann var ákveðið í samráði við bæjaryfirvöld að leggja enn meiri metnað og áherslu á að efla safnkostinn fyrir börn og unglinga.

Kári Bjarnason er forstöðumaður Bókasafns Vestmannaeyja.
Kári Bjarnason er forstöðumaður Bókasafns Vestmannaeyja.

Átaksverkefni

Bókasafnið fór af stað í sumar með sérstakt átaksverkefni við að flokka lesefni eftir erfiðleikastigi og áhugasviði til að búa sig sem best undir aukið mikilvægi fyrir nemendur grunnskólans og vera sem best í stakk búið til að mæta ólíkum þörfum. Mikil vinna hefur verið lögð í verkið og nú svigna hillur barna- og unglingadeildanna undan bókum eftir ólíkum lykilþáttum, þar sem nemandinn er leiddur áfram skref fyrir skref eftir getu og áhugasviði. Þarna bíða óþreyjufullar bækur eftir áhugasömum lesurum. Starfsmenn safnsins hafa lagt metnað sinn í að búa til umhverfi þar sem sögupersónur næstum lifna við með ýmsum listaverkum í barnahornunum sem ýta svo sannarlega undir áhuga barna. Bækurnar eru litamerktar þar sem græni liturinn vísar til bóka sem marka fyrstu kynni barnanna; sá guli til fyrstu sjálfstæðu skrefanna; við appelsínugulan er orðaforði bókanna orðinn fjölbreyttari og meiri krafa um lestrargetu; rauður litur merkir að barnið er orðið vel læst, letrið orðið hefðbundnara, orð geta verið löng og samsett, þegar komið er að fjólubláa litnum eru gerðar ríkari kröfur um lestrarkunnáttu og bækur verða þykkari. Að lokum kemur blái liturinn. Hann, eins og kannski eðlilegt er, vísar „út á djúpið“, inn í fullorðinsdeildina þar sem víða má finna bækur sem auðveldlega geta fangað athyglina – hvort heldur eru bækur um íþróttir eða gæludýr, ævintýri eða ástir, bíla eða þjóðsögur. Markmiðið er að bókasafnið vaxi með barninu og geti á hverjum tíma rétt hverjum einstaklingi bók og bækur sem henta nákvæmlega þessum einstaklingi á nákvæmlega þessum tíma. Við þróun og útfærslu verkefnisins er Bókasafnið í nánu samstarfi við Grunnskóla Vestmannaeyja, einkum starfsmenn bókasafna skólans, ásamt stjórnendum verkefnisins Kveikjum neistann.

Lagður hefur verið metnaður í að efla safnkost Bókasafns Vestmannaeyja …
Lagður hefur verið metnaður í að efla safnkost Bókasafns Vestmannaeyja og setja upp listaverk til að ýta undir áhuga yngri lesenda.

Kynning

Í næstu viku verður blásið til sérstakrar kynningar á þessu samstarfi. Föstudaginn 22. október munu allir nemendur og kennarar í 1. bekk grunnskólans koma í heimsókn og taka starfsmenn safnsins á móti þeim með margvíslegri dagskrá. Allir nemendur í 1. bekk fengu afhent sitt eigið bókasafnsskírteini fyrir fáeinum vikum og sumir hafa þegar komið á safnið til að taka bækur til láns. Á föstudeginum er ætlunin að virkja öll kort allra nemendanna og að hver og einn hefji sína löngu og mikilvægu lestrargöngu innan veggja safnsins. Daginn eftir, laugardaginn 23. október, verður opið hús fyrir nemendur og foreldra í 1.-4. bekk grunnskólans, auk þess sem aðrir áhugasamir eru einnig hjartanlega boðnir velkomnir. Ætlunin er að kynna börnum og forráðamönnum þeirra það mikla framboð sem í boði er á góðum, skemmtilegum, fræðandi og spennandi bókum fyrir alla.

Lokaorð

Það er einlæg ósk og skoðun greinarhöfunda að með samstilltu átaki bæjarbúa, Grunnskóla Vestmannaeyja, Bæjarbókasafnsins og stjórnenda verkefnisins Kveikjum neistann takist að glæða áhugann á undraveröld bókanna og efla á þann hátt lestrargetu og lestraráhuga fyrr og betur meðal nemenda. Fyrir þann fjársjóð sem við erum að vinna með, börnin okkar sem munu erfa landið, er ekkert átak þessu mikilvægara.

Hermundur er prófessor við Norska tækni- og vísindaháskólann í Þrándheimi og við Menntun og hugarfar – rannsóknasetur við Háskóla Íslands. Svava er grunnskólakennari og verkefnastjóri við Menntun og hugarfar – rannsóknasetur við Háskóla Íslands. Kári er forstöðumaður Bókasafns Vestmannaeyja.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert