Facebook lúffar fyrir frönskum fjölmiðlum

AFP

Samfélagsmiðillinn Facebook segist ætla að greiða nokkrum frönskum fjölmiðlafyrirtækjum fyrir að deila fréttum þeirra. Deilur um slíkt hafa staðið yfir í nokkur ár og gaf samfélagsmiðillinn það út árið 2019 að hann myndi ekki greiða fjölmiðlafyrirtækjum fyrir deilingar.

Sama ár tóku lög gildi í Frakklandi sem miða að því að tryggja að fréttamiðlar fái greiðslur þegar aðrar síður deila efni þeirra áfram. 

Tæknirisinn Google mótmælti lögunum, rétt eins og Facebook. 

Þá sektuðu samkeppnisyfirvöld í Frakklandi Google um það sem nam rúmum 73 milljörðum króna í byrjun árs fyrir að ganga ekki hreint til verks í samn­ingaviðræður við franska fjöl­miðla. Tæknirisinn hefur samið við nokkra franska fjölmiðla um greiðslur. 

Facebook hefur nú samið við nokkra franska fjölmiðla um að greiða fyrir fréttir sem birtast á fréttaveitu fólks á Facebook. 

mbl.is