Leitin að ást miðar ágætlega áfram í Danmörku

Davíð Örn Símonarson, framkvæmdastjóri og annar stofnandi Smitten.
Davíð Örn Símonarson, framkvæmdastjóri og annar stofnandi Smitten. Ljósmynd/Smitten

Yfir fimm þúsund Danir hafa freistað þess að finna ástina, eða því um líkt, á íslenska stefnumótaforritinu Smitten sem kom á markað þar í landi í síðasta mánuði. Síðan þá hafa notendur meldað sig samtals 500 þúsund sinnum yfir prófílum annarra notenda, sem hefur skilað ríflega 30 þúsund pörunum eða „mötsum“ eins og það er oftast kallað.

„Þetta er búið að ganga mjög vel. Það er alveg áskorun að koma með nýja vöru inn á markað og þetta gerist frekar hægt til að byrja með. Við sáum það líka á íslenska markaðnum. Núna eru komnir yfir fimm þúsund manns sem hafa sett upp forritið og fjögur þúsund sem hafa sett góðan prófíl með mörgum myndum og fullt af spurningum þannig að við höldum að við séum búin að yfirstíga þetta cold start problem. Núna snýst þetta um að ná þessu mómentum í gang,“ segir Davíð Örn Símonarson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins.

Rúmlega fjögur þúsund Danir eru virkir notendur stefnumótaforritsins Smitten. Vonar …
Rúmlega fjögur þúsund Danir eru virkir notendur stefnumótaforritsins Smitten. Vonar fyrirtækið eftir því að neytendahópurinn rúmlega 20 faldist á næstu þremur mánuðum. Ljósmynd/Smitten

Danir nálgast fjölda íslenskra notenda

Virkir notendur á stefnumótaforritinu í Danmörku eru nú einungis helmingi færri en þeir íslensku, sem telja á bilinu sjö til tíu þúsund manns, en fyrirtækið stefnir á að ná til tæplega hundrað þúsund Dana fyrir árslok.

Til að ná því markmiði hefur fyrirtækið meðal annars verið í miklu samstarfi við danska áhrifavalda. Nú síðast á föstudag voru 10 einstaklingar með mikið fylgi á samfélagsmiðlum að auglýsa vöruna. Markaðssetningin ein og sér er þó ekki nóg til að skila sér í mikilli útbreiðslu heldur er lykilatriði að varan standi undir nafni, að sögn Davíðs.

„Þetta snýst líka um að varan sé það góð að hún byrji að dreifa sér sjálf. Það er ekkert mál að eyða bara fullt af pening og kaupa niðurhal og notendur en það sem maður þarf að horfa á er að reyna að fá inn virka notendur sem að elska vöruna og halda áfram að nota hana til lengri tíma. Þó að þessir notendur séu bara nokkur þúsund á hverjum degi þá er verið að nota forritið mikið. Það hefur gaman af því að skoða fólk og kynnst í gegnum þessa leiki, spjalla og þar fram eftir götum.“

Stefna enn lengra

Útrásin stoppar þó ekki í Danaveldi heldur stefnir fyrirtækið á að fara enn víðar og er markið næst sett á hin Norðurlöndin.

„Við viljum að við séum með fókusinn á danska markaðnum og ná mómentumi þar áður en við förum á sænskan og norskan markað. En þetta er líka keppni upp á það hver er fyrstur inn á þessa markaði. Ef við náum góðri fótfestu á Norðurlöndunum þá er mjög erfitt að búa til eins stefnumótaforrit eins og Smitten og gefa það út á Norðurlöndunum. Okkur langar að komast þangað sem fyrst en það er ekki enn ljóst hvoru megin það fellur við áramótin.“

Er ekki meiri samkeppni á erlendum markaði heldur en hér heima?

„Jú, alveg klárt. Um leið og þú ert kominn út fyrir Ísland þá er samkeppnin miklu meiri. Það er Tinder, Bumble, Happn og síðan er annað stórt app sem heitir Hinge. Hún er samt miklu minni á Norðurlöndunum heldur en á bandaríska markaðnum. Þar ertu með þessa gömlu stóru risa eins og Match.com, OkCupid og Plenty of Fish, sem eru með milljónir notenda bara í Bandaríkjunum.“

Íslenski neytendahópurinn fer vaxandi

Fyrirtækið hefur þó ekki eingöngu verið að vaxa erlendis heldur hefur íslenski viðskiptavinahópurinn einnig stækkað upp á síðkastið. Segir Davíð helst bera á því að notendum í fleiri aldurshópum fari fjölgandi.

„Það sem við erum að sjá núna líka er að allir okkar markhópar eru að flykkjast á Smitten. Hvort sem þú ert 30 til 40, 40 til 50, eða 50 til 60. Það er spennandi að sjá að við erum að ná að uppfylla þarfir miklu stærri hóps en við héldum til að byrja með.“

Hafa íslenskir notendur nú sent yfir eina og hálfa milljón skilaboða milli sín á forritinu og meldað sig rúmlega 40 milljón sinnum. „Sem hljómar geðveikt skrítið fyrir lítinn markað eins og er á Íslandi en það sýnir bara að þeir notendur sem eru að nota appið nota það mjög mikið. Meðaltími hvers notenda eru næstum 18 mínútur á dag. Það er þá meðaltal fyrir alla notendur.“  

mbl.is