Sýndarveruleikaheimur Meta 25 árum of snemma

AFP

Við vorum að vinna í þessu hjá OZ fyrir 25 árum og ég held að það séu enn 25 ár í þetta,“ segir Hilmar Veigar Pétursson, forstjóri CCP, um áform Meta, móðurfélags Facebook, að stofna sýndarveruleikaheim. Hann segir í samtali við mbl.is að hugmyndin með sýndarveruleikaheiminum sé að yfirfæra enn meira af daglega lífi fólks á hið stafræna svið.

Hilmar nefnir að sýndarveruleikinn var fyrst kynntur til sögunnar á níunda áratugnum í skáldsögunni Snow Crash eftir Bandaríkjamanninn Neal Stephenson. Eftir að sú skáldsaga kom út hóf íslenska fyrirtækið OZ að reyna að búa til sýndarveruleikaheiminn sem lýst er í bókinni en Hilmar hóf störf hjá fyrirtækinu árið 1996.

Hilmar Veigar Pétursson, forstjóri CCP.
Hilmar Veigar Pétursson, forstjóri CCP. CCP

„Þá var þetta nú líklega 50 árum of snemma og síðan eru liðin 25 ár. Ég held að það séu enn einhverjir áratugir í að sýndarveruleikinn verði raunveruleiki fólks,“ segir Hilmar og á við að tæknin sé enn ekki nægilega þróuð. „Þeim væri kannski betur borgið að fara aðeins rólegra í þetta, þeir eru ekki að missa af neinu.“

Flótti frá vandamálinu

Hilmar telur að það sem drífi samskiptarisann út í sýndarveruleikann séu vandræði með ímynd fyrirtækisins en fyrrverandi starfsmaður Facebook lak á dögunum gögn­um þar sem fyrirtækið er meðal ann­ars sakað um að meta fjár­muni ofar ör­yggi.

„Það er mjög erfitt og flókið að taka á því máli. Ég held að þetta sé því einhverskonar flótti frá vandamálinu og óþolinmæði að fara að hella sér út í sýndarveruleikann og endurskýra fyrirtækið sem Meta,“ segir Hilmar og bætir við að Facebook sé orðinn óspennandi vinnustaður fyrir marga.

AFP

Hann segir þó að áformin séu ekki endilega meðvitað tilkynnt á þessum tímapunkti til þess að hylma yfir vandræði Facebook. 

„Ég held að Mark Zuckerburg sjálfur, sem er augljóslega að drífa þetta mikið og persónulega áfram, viti ekki alveg hvað hann eigi að gera með Facebook forritið af því þetta er komið á svo erfiðan stað,“ segir Hilmar og bætir við að Zukerburg hafi greinilega mikla ástríðu fyrir verkefninu.

Persónuupplýsingar aðgengilegri

Hilmar segir að almenningur muni sjá margt nýtt frá Meta á næstunni. „Þeir hafa verið að vinna í þessu í mörg ár, frá því þeir kaupa Oculus árið 2015, og eru með um tíu þúsund manns að vinna í verkefninu,“ segir hann og nefnir lausnir í fundarhaldi og í líkamsrækt sem gerast í sýndarveruleikanum.

Spurður hvort að áform Meta muni hafa áhrif á tölvuleikjaheiminn segist Hilmar vera viss um að svo muni vera. „Þetta er rosalega öflug fjárfesting inn í bransann og mun leiða til enn meiri fjárfestinga og fjölbreytni,“ segir Hilmar og leggur áherslu á hversu stórt fyrirtæki Meta sé.

Telur þú að dreifing persónuupplýsinga muni aukast með sýndarveruleikaheiminum?

„Ég held að persónuupplýsingar verði enn aðgengilegri. Sérstaklega með Facebook í bílastjórasætinu þá er þetta þeirra ær og kýr.“

mbl.is