Zuckerberg feti í fótspor Elon Musk

Guðjón Guðjónsson, framkvæmdastjóri Oz, telur að breyting Facebook yfir í Meta sé sniðug og tímabær. Hann líkir framsýni Zuckerberg við áætlanir Elon Musk um fyrirtæki hans, Space X.

„Ég skil vel þessa breytingu og finnst hún vera mjög sniðug og hefði eflaust reynt að gera eitthvað svipað ef ég væri í sömu stöðu og Mark Zuckerberg,“ segir Guðjón í samtali við mbl.is.

Hann segir að hvort sem af verði framtíðarsýn Zuckerberg um metaverse-heiminn eða ekki hafi fyrirtækið verið í ákveðnum vandræðum með reksturinn og að tímabært hafi verið að gera sams konar breytingar og Google gerði árið 2015 þegar það breytti nafni sínu í Alphabet.

„Þá getur þó starfsfólkið alla vega mætt til vinnu hjá Meta og tengt við eitthvað sem mun kannski gerast eftir eitt ár eða hundrað ár, það raunverulega skiptir ekki öllu máli. Það er aðalatriðið að það er verið að búa til ákveðið leiðarljós (e. North Star) fyrir starfsfólkið að stefna að og það er alveg vitað að það mun gerast í einhverjum skrefum.“

Zuckerberg vilji ekki vera á eftir Apple

Guðjón segir að breytingin gæti einnig stafað af því að Mark Zuckerberg hafi verið seinn á sér þegar Apple breytti sínu kerfi með því að opna á App store í símanum sínum, sem varð til þess að Facebook þurfti að kaupa fyrirtæki eins og Instagram, Whatsapp og fleiri fyrirtæki eftir á fyrir töluverða fjármuni.

„Núna má ætla að Facebook sé með ákveðna innsýn inn í það sem er fram undan hjá meðal annars Apple og það má ætla að það gætu verið einhvers konar gleraugu sem að verða með einu app store og í staðinn fyrir það að Facebook þurfi að fara að kaupa fyrirtæki eftir á sem eru tilbúin í þær breytingar að þá ætla þeir að vera tilbúnir fyrir fram,“ segir Guðjón.

Guðjón segir að ljóst sé að Facebook vilji vera á …
Guðjón segir að ljóst sé að Facebook vilji vera á undan Apple. AFP

Hann segir þær einkaleyfisumsóknir sem Apple hefur verið að skrá síðustu árin ásamt þeim ráðningum sem fyrirtækið hefur verið að gera síðustu fjögur árin sýna að ljóst sé að heilmikið sé á döfinni hjá Apple sem mun örugglega koma til með að breyta landslaginu.

„Ég get alveg ímyndað mér það að Facebook vilji vera aðeins tilbúnir undir þær breytingar heldur en ella.“

Virki vel fyrir markaðinn að vita hundrað ára planið

„Ég hugsa að hinn möguleikinn er að þetta sé ákveðið markaðstrix hjá Mark og félögum að standa fyrir ákveðna framsýn og við höfum séð það virka hjá eins og Elon Musk, hvernig hann hefur byggt upp sýnina fyrir Space X fyrirtækið en er í dag að stíga bara skref með stöku samningum við NASA og aðra,“ segir Guðjón.

Hann segir að það virðist virka mjög vel fyrir markaðinn að vita hvert hundrað ára planið sé. Þá sé oft gagnrýnt Bandaríkjamenn fyrir að hugsa einungis um næsta ársfjórðung en svo þegar þeir hugsa á svipaðan hátt og Japanir og Kínverjar, sem oftar en ekki vilja helst hafa hundrað ára plan, séu þeir gagnrýndir harðlega.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert