Áreiðanleg ofurtölva væntanleg

Vetur á Húsavík. Ofurtölvan á að vera komin í gagnið …
Vetur á Húsavík. Ofurtölvan á að vera komin í gagnið snemma árs 2023 og mun þá veita aðgang að nákvæmari háupplausna veðurspám sem bæta veðurþjónustu til framtíðar með áreiðanlegri veðurviðvörunum. mbl.is/Hafþór

Veðurstofur Íslands, Danmerkur, Írlands og Hollands hafa tekið höndum saman um rekstur reiknilíkana og úrvinnslu veðurgagna með nýrri ofurtölvu sem staðsett verður á Veðurstofu Íslands. Markmiðið með samstarfinu er að stuðla að framþróun í skammtíma veðurspám og auka áreiðanleika gagna.  

Fjallað er um ofurtölvuna á vef Veðurstofunnar.

Þar segir að grunnur samstarfsins liggi í aukinni þörf fyrir áreiðanlegri veðurspár sem styðja ákvarðanatöku þegar kemur að vályndu veðri og áhrifum loftslagsbreytinga.

Samstarf þessara fjögurra veðurstofa gengur undir heitinu United Weather Centres – West en með samstarfinu eykst geta þjóðanna til að gæta að öryggi sínu gagnvart áhrifum aukinna öfga í veðri sem afleiðingar loftslagsbreytinga.  

Væntanleg til landsins árið 2023

Auk þess að veita nákvæmari skammtíma veðurspár, mun nýja ofurtölvan sem framleidd er af Hewlett Packard Enterprise (HPE), stuðla að framþróun á rannsóknum í loftslagsvísindum. Sú framþróun og samstarfið í heild sinni mun styðja við áætlanir stjórnvalda og atvinnulífs þegar kemur að aðlögun vegna áhrifa loftslagsbreytinga.   

Ofurtölvan á að vera komin í gagnið snemma árs 2023 og mun þá veita aðgang að nákvæmari háupplausna veðurspám sem bæta veðurþjónustu til framtíðar með áreiðanlegri veðurviðvörunum.

„Við viljum vera í stakk búin til að svara auknum kröfum um nákvæmari og ítarlegri veðurspár, bæði til að auka öryggi landsmanna og þeirra ferðamanna sem landið sækja. Loftslagsbreytingar kalla einnig á öflugri reiknigetu og meiri samvinnu við gerð loftlagssviðsmynda til þess að sem best mynd fáist á þær breytingar á veðráttu og veðurfari sem samfélagið stendur frammi fyrir og þarf að aðlaga sig að”, er haft eftir Árna Snorrasyni, forstjóra Veðurstofu Íslands.

Árni Snorrason forstjóri Veðurstofu Íslands.
Árni Snorrason forstjóri Veðurstofu Íslands. Mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert