Neyddust til að rýma alþjóðlegu geimstöðina

Alþjóðlega geimstöðin, ISS var í hættu vegna braks í návígi …
Alþjóðlega geimstöðin, ISS var í hættu vegna braks í návígi við hana fyrr í dag en hættan virðist liðin hjá í bili.

Geimfarar alþjóðlegu geimstöðvarinnar neyddust til að rýma sjálfa geimstöðina fyrr í dag vegna fljúgandi braks í návígi við stöðina.

Þeir færðu sig úr geimstöðinni yfir í geimflaugina SpaceX Crew Dragon og biðu átekta og fregna af því hvort nauðsynlegt yrði að yfirgefa stöðina algjörlega vegna braksins. 

Geimferðayfirvöld Bandaríkjanna (e. U.S. Space Command) gáfu í kjölfarið út yfirlýsingu um að málið sé til rannsóknar en allt bendi til þess að gervihnöttur hafi verið sprengdur upp og því sé geimrusl á víð og dreif um tiltekið svæði. 

Gruna Rússa um vopnatilraunir

Geimruslið er afar smátt, jafnvel málningarflyksur eða steinbrot, og því erfitt að koma auga á það með tækninni frá jörðu, en það getur valdið gríðarlegum skaða ef til árekstrar kemur enda feykist það um af slíkum hraða. 

Atvikið vakti þann grun hjá Bandaríkjamönnum að Rússar hafi verið að framkvæma tilraunir með sérstök vopn gegn gervihnöttum yfir helgina, og skotið sinn eigin gervihnött með þeim afleiðingum að hann splundraðist í margar litlar agnir sem geta verið afar hættulegar á ferð og flugi um geiminn.

Vinna að því að skilgreina áhættusvæðið

Í umfjöllun CNN er haft eftir fulltrúum geimráðs Bandaríkjanna að flugskeyti hafi verið skotið af jörðu í átt að skotmarki á sporbaug. Það væri athyglisvert því aðeins væri vitað um fáeinar árangursríkar tilraunir með gervihnattavopn, sem framkvæmdar hafa verið af Bandaríkjunum, Rússlandi, Kína og Indlandi. 

Síðasta tilraun var framkvæmd af Indlandi árið 2019 með svipuðum afleiðingum og hlaut sú tilraun þeirra mikla gagnrýni í alþjóðasamfélaginu. 

Enn er unnið að því að skilgreina betur áhættusvæðið og ráðið mun miðla þekkingu sinni eftir því sem henni vindur fram, til allra annarra þjóða með geimför úti svo þær geti tryggt öryggi þeirra. Um þessar mundir eru yfir 4.500 gervihnettir staðsettir á sporbauginum um jörðina.

Í frétt CNN var haft eftir fulltrúum geimráðs Bandaríkjanna að …
Í frétt CNN var haft eftir fulltrúum geimráðs Bandaríkjanna að flugskeyti hafi verið skotið af jörðu í átt að skotmarki á sporbaug. AFP

Gerðu lítið úr alvarleika málsins

Rússneski geimfarinn Anton Shkaplerov tilkynnti á twitter-reikningi sínum að hópurinn, sem samanstendur af sjö geimförum, væri öruggur.

Rússneska geimstofnunin Roscosmos staðfesti að atburður sem olli miklu geimrusli hafi átt sér stað en gerði lítið úr alvarleika málsins og hefur ekki gengist við grunsemdum Bandaríkjamanna. Umrætt brak hafi færst burt úr áhættusvæðinu og geimstöðin því örugg. 

mbl.is