Erfðabreyttir þráðormar þefa uppi krabbamein

Japanska líftæknifyrirtækið Hirotsu Bio Science hefur þróað erfðabreytta tegund þráðorma …
Japanska líftæknifyrirtækið Hirotsu Bio Science hefur þróað erfðabreytta tegund þráðorma sem eiga að geta þefað uppi krabbamein í brisi. AFP

Japanska líftæknifyrirtækið Hirotsu Bio Science hefur þróað erfðabreytta tegund þráðorma sem eiga að geta þefað uppi krabbamein í brisi.

Líkamvessar krabbameinssjúkra lykti öðruvísi

Vísindamenn hafa lengi vitað að líkamsvessar krabbameinssjúkra lykta öðruvísi en þeirra einstaklinga sem heilbrigðir eru og hafa hundar nú þegar verið þjálfaðir til að greina sjúkdóminn á andardrætti eða þvagprufum fólks.

Erfðabreyttu ormar Hirotsu Bio Science, sem kallaðir eru „C.elegans“, eru um einn millimetri að lengd og hafa þeir mjög næmt lyktarskyn svo þeir geti brugðist við þvagi fólks sem er með briskrabbamein, krabbamein sem greinist yfirleitt of seint.

„Þetta eru gríðarlegar tækniframfarir,“ segir Takaaki Hirotsu, forstjóri fyrirtækisins, í samtali við fréttastofu AFP.

Fyrirtækið er nú þegar byrjað að nota ormana í krabbameinsskimunum, án þess þó að tilgreina fyrir hverskonar krabbameini.

Frá vinstri: Takaaki Hirotsu, forstjóri líftæknifyrirtækisins Hirotsu Bio Science og …
Frá vinstri: Takaaki Hirotsu, forstjóri líftæknifyrirtækisins Hirotsu Bio Science og Eric di Luccio rannsóknarstjóri fyrirtækisins á blaðamannafundi í dag. AFP

Ormarnir greindu öll þvagsýni rétt í prófunum

Þessari nýstárlegu skimunarleið er ekki ætlað að greina briskrabbamein en hún á að auðvelda fólki að skima sín eigin þvagsýni heimafyrir. Sjúklingnum yrði í framhaldinu vísað til læknis fyrir frekari rannsóknir, sagði Hirotsu á blaðamannafundi í dag.

Hann segist vongóður um að ormarnir geti hjálpað til við krabbameinsgreiningar í Japan, þar sem tíðni krabbameinsskimana hafi lækkað verulega í kórónuveirufaraldrinum.

„Þetta breytir leiknum algerlega. Það þarf að verða viðhorfsbreyting til krabbameinsleitar,“ segir Eric di Luccio, yfirmaður rannsóknarmiðstöðvar fyrirtækisins.

Hirotsu og Háskólinn í Osaka greindu frá getu C.elegans til að greina krabbamein í sameiginlegri rannsókn sem birt var í ritrýnda tímaritinu „Oncotarget“ fyrr á þessu ári.

Í aðskildum prófunum sem fyrirtækið gerði greindu ormarnir öll 22 þvagsýni krabbameinssjúklinga rétt, þar á meðal þvagsýni sjúklinga með fyrsta stigs krabbamein.

Tim Edwards, dósent í sálfræði við háskólann í Waikato á Nýja Sjálandi, segir notkun ormanna í þessum tilgangi lofa góðu. Sjálfur hefur hann rannsakað getu hunda til þess að greina lungnakrabbamein. Benti hann enn fremur á að ólíkt hundum þyrftu ormarnir enga þjálfun.

mbl.is