Ríflega þriðjungur mannskyns aldrei farið á netið

Ljósmynd/Colourbox

Um 37% fólks í heiminum, eða um 2,9 milljarðar manna, hafa aldrei notað netið. Þetta kemur fram í samantekt sem Sameinuðu þjóðirnar birtu í dag. Þetta vekur athygli, ekki síst þar sem margir hafi nýtt sér vefinn í miklum mæli bæði til náms og vinnu á tímum kórónuveirufaraldursins.

Alþjóðafjarskiptasambandið (ITU), sem heyrir undir SÞ, telur að um 96% þessa fólks búi í þróunarlöndunum.

ITU bendir á að netnotendur hafi verið um 4,1 milljarður árið 2019 en í ár séu þeir um 4,9 milljarðar, en stofnunin telur að vöxtinn megi að hluta til rekja til kórónuveirufaraldursins.

Stofnunin telur ennfremur að mörg hundruð milljónir netverja fari aðeins endrum og eins á netið, deili vélbúnaði með öðrum eða standi frammi fyrir lélegu netsambandi sem hafi áhrif á þeirra netnotkun.

Houlin Zhao, framkvæmdastjóri ITU, segir að stefnt sé að því að tengja við netið þessa 2,9 milljarða sem eftir standa. Enginn verði skilinn eftir.

Netnotendum fjölgaði um rúmlega 10% fyrsta árið eftir að Covid fór fyrst sem eldur um sinu um heiminn, sem er langmesta aukning sem hefur orðið á einu ári.

ITU segir að talsverður ójöfnuður ríki í heiminum hvað varðar aðgengi að netinu en íbúar í fátækari ríkjunum hafi oftar en ekki efni á því að tengjast vefnum. Þetta útskýri þá staðreynd að ríflega þriðjungur mannskyns í um 46 þróunarlöndum hafi aldrei notað netið.

mbl.is