Bannað að deila myndum án samþykkis

Breytingar hafa tekið gildi hjá Twitter.
Breytingar hafa tekið gildi hjá Twitter. AFP

Twitter hefur sett nýjar reglur sem banna notendum að deila myndum eða myndskeiðum af öðru fólki án samþykkis þess.

Breytingarnar tóku gildi um svipað leyti og nýr forstjóri samfélagsmiðilsins var kynntur til leiks.

Samkvæmt þessum nýju reglum getur fólk sem er ekki opinberar persónur beðið Twitter um að taka út myndir sem voru birtar af þeim eða myndskeið án þeirra samþykkis.

Að sögn Twitter á þetta ekki við um „opinberar persónur eða einstaklinga þegar fjölmiðlar birta tíst sem eru í almannaþágu eða bæta við opinbera umræðu“.

„Við munum alltaf reyna að meta samhengið þegar efninu er deilt og í slíkum tilfellum gætum við leyft myndum eða myndböndum að vera áfram á vefnum,“ sagði fyrirtækið.

AFP

Deilt hefur verið í mörg ár um rétt fólks til að koma í veg fyrir að þriðji aðili geti birt myndir af því á netinu eða gögn, sérstaklega í annarlegum tilgangi.

Twitter hefur nú þegar bannað birtingu á einkaupplýsingum, þar á meðal símanúmerum og heimilisföngum en „vaxandi áhyggjur“ eru uppi um birtingu efnis til að hrella einstaklinga, ógna þeim eða afhjúpa þá á einhvern hátt, að sögn Twitter.

mbl.is