Kínverjar rannsaka „dularfullan kofa“ á tunglinu

Tunglið heillar og þar er nú kínverski könnunarvagninn Yutu 2 …
Tunglið heillar og þar er nú kínverski könnunarvagninn Yutu 2 að rannsaka fjarhliðina. AFP

Vísindamenn furða sig nú yfir kubbslaga hlut sem sást á fjarhlið tunglsins. Um er að ræða form sem sást á myndefni sem kínverski könnunarvagninn Yutu 2 tók úr um 80 metra fjarlægð.

Fram kemur í umfjöllun Smithsonian Magazine, að Yutu 2 hafi verið að ferðast yfir Von Kárman-gíginn, sem er í Suðurpóls-Aitken dæld tunglsins, er hann tók myndirnar. Kínverskir vísindamenn hafa nú breytt stefnu könnunarvagnsins til að skoða hlutinn betur, en það mun taka Yutu 2 nokkra mánuði að komast á áfangastað.

Hið athyglisverða form sást fyrst við sjóndeildarhringinn í nóvember, eða á 36 tungldegi Yutu 2, að því er fram kom á kínverskum vef sem tengist geimferðastofnun Kína. Fyrst var greint frá hlutnum, eða forminu, í færslu í liðinni viku og þá upphaflega talað um „dularfullan kofa“.

Það mun taka Yutu 2, sem er sexhjóla farartæki sem gengur fyrir sólarorku, tvo til þrjá tungldaga, sem jafngildir um tveimur til þremur mánuðum á jörðinni, að komast að fyrirbærinu.

Líklega grjóthnullugur fremur en hýbýli geimvera

Margir velta nú vöngum yfir því hvað sé þarna að finna og einn gárungi spyr hvort þarna sé um að ræða hús sem geimverur hafi reist eftir brotlendingu eða mögulega fornt geimfar.

Svo getur vel verið að „kofinn“ sé einfaldlega stór grjóthnullungur sem hefur færst til eftir árekstur loftsteins, en gígur sést við hliðina á myndinni. Einnig er tekið fram að myndin sé ekki í ýkjahárri upplausn.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Yutu 2, sem hefur verið á fjarhlið tunglsins í tæp þrjú ár, uppgötvar eitthvað áhugavert á ferðum sínum. Í september 2019 rakst vagninn á undarlegt efni, sem minnti á gel, sem síðar kom í ljós að voru steinagnir sem höfðu bráðnað og límst saman í gríðarlegum hita.

Fyrr á þessu ári sá Yutu 2 óvenjuleg brot standa upp úr landslaginu sem reyndust svo vera grjóthnullungar sem skutust á loft í kjölfar áreksturs loftsteins.

En á meðan við bíðum má hlusta á lög af breiðskífunni The Dark Side of the Moon í flutningi Pink Floyd.

mbl.is