Örplast getur valdið frumuskemmdum

Samkvæmt nýlegri vísindarannsókn getur örplast valdið ofnæmisviðbrögðum og jafnvel frumudauða …
Samkvæmt nýlegri vísindarannsókn getur örplast valdið ofnæmisviðbrögðum og jafnvel frumudauða í mönnum. Ljósmynd/Thinkstock

Það magn örplasts sem fólk innbyrðir í gegnum fæðu getur valdið skemmdum á frumum mannslíkamans, samkvæmt nýlegri vísindarannsókn.

Getur valdið ofnæmisviðbrögðum og frumudauða

Skemmdirnar geta svo leitt til ofnæmisviðbragða og jafnvel frumudauða. Langtímaáhrif örplasts á heilsu manna eru þó enn á huldu þar sem ekki er vitað hversu langan tíma það tekur fyrir örplastið að skila sér út úr líkamanum.

Mengun örplasts er að finna um alla plánetuna, allt frá tindi Everestfjalls til dýpstu hluta hafsins. Þá er vitað að menn innbyrði óheyrilegt magn af örplasti í gegnum mat, drykk og andrúmsloftið, að því er greint frá í The Guardian.

„Skemmdir á frumum er í mörgum tilfellum undanfari heilsufarslegra vandamála,“ segir Evangelos Danopoulos, sem fór fyrir rannsókninni sem birt var í vísindatímaritinu Journal of Hazardous. „Þetta er áhyggjuefni. Eins og er höfum við enga leið til að vernda okkur gagnvart þessum áhrifum,“ bætti hann við.

Með frekari rannsóknum væri mögulegt að bera kennsl á hvaða matvæli innihalda mest af örplasti svo að hægt sé að forðast þau. Enn betra væri þó að minnka eða stöðva framleiðslu á plasti og plastúrgangi, að sögn Danopoulus. „Þegar plastið er komið út í umhverfið getum við ekki tekið það úr því aftur.“

Örplast hefur fundist í fylgju ófæddra barna

Hann segir rannsóknum á áhrifum örplasts á mannslíkamann þó fara fjölgandi.

„Það er ekki að ástæðulausu. Við erum berskjölduð fyrir þessum ögnum á hverjum degi. Við borðum þær og öndum þeim að okkur. Og við vitum í raun ekki almennilega hvaða áhrif þær hafa á líkamann okkar.“

Rannsóknin benti einnig til þess að ólögulaga örplast valdi frekar frumudauða heldur en kúlulaga örplast. Þetta getur skipt máli fyrir framtíðarrannsóknir í þessum efnum þar sem mikið af því örplasti sem keypt er til notkunar á tilraunastofum er kúlulaga og þar af leiðandi endurspegli þær kannski ekki það örplest sem menn innbyrða dagsdaglega.

„Það er athyglisvert að lögun örplastsins hafi svona mikið að segja um eituráhrif þess en það staðfestir grun margra plastmengunarfræðinga um að kúlulaga örplast sýni kannski ekki nægilega raunveruleg áhrif.“

Næsta skref vísindamanna væri að skoða áhrif örplasts á tilraunadýrum, að sögn Danopoulos. Þar sem ekki þætti siðferðilega rétt að gera tilraun í þessum efnum á mönnum.

Í mars síðastliðnum sýndi rannsókn fram á að örplast fari hratt inn í hjörtu, heila og önnur líffæri fósturs hjá rottum.

Þá fannst örplast í fylgju ófæddra barna í desember en vísindamenn segja það mikið áhyggjuefni. Í október sýndu vísindamenn svo fram á það að börn sem drekka mjólk úr plastflöskum gleypi milljónir plastagna á hverjum degi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert