Hvað er vitað um Ómíkron-afbrigðið?

Spítalainnlögnum hefur ekki fjölgað eins hratt og búast hefði mátt …
Spítalainnlögnum hefur ekki fjölgað eins hratt og búast hefði mátt við vegna smitfjölgunar. AFP

Ómíkron-afbrigði kórónuveirunnar greindist fyrst í Suður-Afríku og hefur náð verulegri útbreiðslu þar. Sama þróun hefur sést víðar og hefur afbrigðið dreift sér á áður óséðum hraða hvað afbrigði kórónuveirunnar varðar, að sögn Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. BBC tók saman það sem hægt er að læra af reynslu Suður-Afríku. 

Veldur Ómíkron-afbrigðið vægari veikindum?

Gögn um spítalainnlagnir vegna Covid-19 í Suður-Afríku leiða í ljós að þeim hefur fjölgað verulega að undanförnu á landsvísu. En fjölgunin er ekki jafn brött og búast hefði mátt við miðað við aukningu tilvika. Færri sjúklingar þurfa á aukasúrefni og öndunarvélum að halda. Þá hefur fólk almennt legið inni á spítala í styttri tíma undanfarið en áður var. 

Suður-Afríska heilbrigðismiðstöðin Discovery Health reiknaði það út að fólk sem smitaðist snemma í Ómíkron-bylgjunni hefði verið 30% minna líklegt til þess að vera lagt inn á spítala en fólk sem smitaðist í fyrstu kórónuveirubylgju Suður-Afríku í fyrra.

Þarlendir vísindamenn segja þó að þetta sýni ekki að Ómíkron-afbrigðið sé vægara en fyrri afbrigði kórónuveirunnar. Þegar litið er til fyrrnefndra útreikninga þarf að taka með í reikninginn að nú er hluti þjóðarinnar bólusettur og nokkuð er einnig um náttúrulegt ónæmi gegn veirunni. Slíkt var ekki til staðar í fyrstu bylgju faraldursins.

Veikjast börn verr af Ómíkron?

Fréttir frá spítölum á þeim svæðum sem eru hvað verst sett hvað smit varðar sem stendur sýna að innlögnum barna vegna Covid-19 hefur fjölgað. Einhverjir hafa bent á þessar tölur og sagt að afbrigðið virðist hættulegra börnum en fyrri afbrigði. 

Slíkum fullyrðingum telur Helen Rees, prófessor hjá Witwatersrand háskóla í Jóhannesarborg, að eigi að taka með varúð þar sem um er að ræða mjög takmarkaðar tölfræðilegar upplýsingar. Þá er ekki hægt að greina á milli þeirra barna sem lögð hafa verið inn vegna undirliggjandi sjúkdóma og þeirra sem raunverulega hafa verið lögð vegna veikinda af völdum Covid-19.

Hvert er hlutverk bólusetninga í baráttunni við Ómíkron?

Einungis um 26% Suður-Afrísku þjóðarinnar hafa verið fullbólusett gegn Covid-19 svo það er erfitt að draga ályktanir fyrir betur bólusettar þjóðir út frá gögnum frá Suður-Afríku. Þar í landi hefur aftur á móti nokkuð hátt hlutfall þjóðarinnar smitast af kórónuveirunni og þannig fengið ónæmi gegn henni. 

Muge Cevik, doktor hjá háskólanum í St. Andrews, telur að hætta á smiti milli manna minnki verulega þegar fólk er fullbólusett þar sem bólusettir veikist í styttri tíma ef þeir smitast og losna fyrr við veiruna. Þannig hefur hún takmarkaðri möguleika á að dreifa sér með bólusettum en óbólusettum. 

Það er samt sem áður á hreinu að Ómíkron-afbrigðið dreifir hratt úr sér, jafnvel hjá þjóðum með hærra bólusetningarhlutfall. 

Þrír skammtar komi í veg fyrir 90% innlagna

Þó að bólusetningar geti ekki komið alfarið í veg fyrir smit er útlit fyrir að þær gegni mikilvægu hlutverki í að koma í veg fyrir alvarleg veikindi af völdum Covid-19, jafnvel þegar fólk smitast af Ómíkron-afbrigðinu. Það er þó ekki á hreinu hversu mikil vörnin gegn alvarlegum Ómíkron-veikindum er.

Fyrstu niðurstöður úr rannsóknum í Suður-Afríku benda til þess að bóluefni Pfizer komi í veg fyrir um 70% innlagna og það hlutfall fer upp í 90% ef fólk hefur fengið viðbótarskammt. 

mbl.is