Þróa tölvuleik gegn þunglyndi og kvíða

Feðgarnir Guðjón Ingi Hauksson og Jóhann Ingi Guðjónsson vinna nú …
Feðgarnir Guðjón Ingi Hauksson og Jóhann Ingi Guðjónsson vinna nú að þróun nýs tölvuleiks sem á að hjálpa ungu fólki sem þjáist af kvíða og þunglyndi. Ljósmynd/Aðsend

Algengt er að ungt fólk, sem þjáist af þunglyndi og kvíða, einangri sig og leiti í tölvuleiki. Feðgarnir Jóhann Ingi Guðjónsson og Guðjón Ingi Hauksson hyggjast hjálpa þessu fólki með þróun nýs tölvuleiks sem hannaður er í samstarfi við geðlækna og sálfræðinga.

Þetta er viðkvæmt málefni og því mikilvægt að vanda til verka,“ segir Jóhann í samtali við mbl.is.

Kenndi sjálfum sér grunninn að forritun á netinu

Jóhann, sem er menntaður viðskiptafræðingur, með meistaragráðu í markaðsfræðum og alþjóðaviðskiptum, hefur að eigin sögn unnið mikið í kringum tölvuleiki og lengi langað að framleiða sína eigin.

„Í þeim störfum áttaði ég mig á því að með réttu hugarfari getur hver sem er búið til tölvuleik. Til að byrja með kenndi ég sjálfum mér að forrita á netinu en nam svo tölvunarfræði í eitt og hálft ár til að læra grunninn betur.“

Hann hafi svo fengið föður sinn, Guðjón Inga Hauksson, sem er grafískur hönnuður, til liðs með sér við gerð tölvuleiksins PANDU.

„Ég var svo heppinn að eiga pabba sem er frábær að teikna og með margra áratuga reynslu af grafískri hönnun á bakinu, til að sjá um útlit leiksins. Hann hafði aldrei unnið að tölvuleik áður en var alveg ótrúlega fljótur að laga sig að þessu nýja verkefni. Við fáum gjarnan hrós fyrir útlit PANDU á samfélagsmiðlum og það er allt pabba að þakka.“

Guðjón, faðir Jóhanns, sá um útlit leiksins en hann er …
Guðjón, faðir Jóhanns, sá um útlit leiksins en hann er grafískur hönnuður. PANDU

Vilja hjálpa ungu fólki á þeirra eigin heimavelli

Leikurinn PANDU er í grunninn svokallaður tvívíður hopp og skopp- leikur (e. 2D platformer) á borð við hinn heimsfræga tölvuleik Super Mario, að sögn Jóhanns.

„Spilarar fylgja aðalhetju leiksins á ótrúlegu ferðalagi um heiminn. Þetta verður eins og að spila skemmtilega teiknimynd,“ segir hann.

Samkvæmt Jóhanni hafa margir tölvuleikir, sem fjalla um þunglyndi og kvíða, hjálpað þúsundum manna sem þjást af sjúkdómnum og nefnir hann leiki á borð við Celeste, Aether og Elude sem dæmi. Enginn slíkur leikur hafi þó verið hannaður með það í huga að hjálpa fólki fyrr en nú.

Við munum því hanna PANDU í samstarfi við geðlækna og sálfræðinga. Þannig munum við búa umbunarkerfi og þrautir sem ýta undir meðferðaúrræði. Birtingarmyndir þunglyndis og kvíða geta verið mjög misjafnar en það er vitað að ungt fólk sem þjáist af sjúkdómunum er gjarnt á að einangra sig og leita í tölvuleiki. Við sáum því tækifæri til þess að mæta því fólki á þeirra heimavelli og reyna hjálpa því frá tölvunni.“

Feðgarnir hlutu nýlega styrk fyrir PANDU úr tækniþróunarsjóði Rannísar.
Feðgarnir hlutu nýlega styrk fyrir PANDU úr tækniþróunarsjóði Rannísar. PANDU

Hlutu langþráðan styrk úr tækniþróunarsjóði

Verkefni feðganna tveggja hlaut á dögunum styrk í haustúthlutun Tækniþróunarsjóðs Rannísar. Inntur eftir því segist Jóhann lengi hafa reynt að fá styrk fyrir verkefninu en alltaf fengið synjun. Það hafi því verið „tilfinningaþrungin“ stund að fá loks stuðning við verkefnið.

Maður er í rauninni að fá staðfestingu að maður sé að vinna að einhverju mikilvægu. Það er ekki auðvelt fyrir tölvuleikjaframleiðendur að fá styrki á Íslandi enda hafa þeir ekki aðgang að sjóðum líkt og tónlistar- og kvikmyndagerðarfólk. Þótt tölvuleikir segi sögur og innihaldi tónlist þá er einsog forritun þyki ekki nógu fín til að teljast list.“

Það sé því mikið fagnaðarefni fyrir íslenska frumkvöðla að hafa aðgang að sjóði eins og Tækniþróunarsjóði Rannísar.

Þeir sjá hversu mikið virði getur falist í verkefni eins og PANDU og við erum alveg í skýjunum. Án þeirra væri nánast ómögulegt að fylgja þessari hugmynd eftir, allavega ekki í þeirr mynd sem við munum gera núna. Núna höfum við fjármagn til að hefja samvinnu með sérfræðingum, sem mun breyta miklu.“

Leikurinn verður gefinn út á bæði íslensku og ensku.
Leikurinn verður gefinn út á bæði íslensku og ensku. PANDU

Hyggjast gefa leikinn út á bæði íslensku og ensku

Spurður segir Jóhann styrkinn vera til 12 mánaða en að þeim tíma loknum verði útbúin hagkvæmnis- og viðskiptaáætlun ásamt fullkláruð frumútgáfa af leiknum. Að því loknu ætti svo að vera auðvelt að sjá fyrir endann á framleiðslu leiksins.

Leikirnir verði að lágmarki gefinn út á íslensku og ensku en vonandi verði hægt að þýða hann yfir á fleiri tungumáli, segir hann inntur eftir því.

„Saga PANDU er mikilvæg og það væri óskandi að sem flestir geti skilið hana.“

Feðgarnir stefna að því að selja leikinn á hefðbundnum leikjaveitum á borð við Steam, Playstation Store, Nintendo eShop, Xbox Games Store. Nú þegar er hægt að bæta PANDU við á óskalista á vef Steam.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert