iPhone orðinn 15 ára og byltingin rétt að byrja

Steve heitinn Jobs sýnir hinn nýja iPhone, sem hann sagði …
Steve heitinn Jobs sýnir hinn nýja iPhone, sem hann sagði byltingarkenndan. Ljósmynd/Apple

Fimmtán ár voru í gær frá því að Steve Jobs steig á svið í Kaliforníu og lyfti hulunni af iPhone. Jobs var sölumaður af Guðs náð og hann sagði áheyrendum frá því að Apple myndi kynna þrjú byltingarkennd tæki: iPod með stórum snertiskjá, nýja gerð síma og loks netsamskiptatæki. Það var mikið klappað fyrir iPod, enn meira fyrir símanum en salurinn var ekki jafnákveðinn í hrifningu sinni yfir netsamskiptatækinu, virtist ekki vel vita um hvað hann var að tala.

Hins vegar lá við að þakið rifnaði af húsinu þegar Jobs endurtók upptalninguna nokkrum sinnum og það tók að renna upp fyrir fólki að hann var að tala um eitt og sama tækið.

Það er rétt að hafa í huga að á þessum tíma var iPod ekki aðeins metsölugræja, heldur menningarlegt fyrirbæri, og farsímabyltingin hafði á nokkrum árum breiðst um allan heim. Netið var vissulega búið að gera sig gildandi, en nákvæmlega hvað Jobs átti við þegar hann talaði um netsamskiptatæki höfðu menn ekki á hreinu. Sem er ekki skrýtið þegar haft er í huga að hann var sjálfur ekki viss um það.

Með lífið í lúkunum

Jobs vissi hins vegar að hann var með byltingarkennt tæki í höndunum, græju sem myndi breyta öllu. Þróun iPhone hafði raunar hafist sem stór og betri iPod, sem hugsanlega mætti hringja með. Á meðan þróunarferlinu stóð breyttist hins vegar hugmyndin og það varð ofan á að í stað þess að búa til stóran iPod ætti að búa til agnarsmáa tölvu.

Það kom ekki á óvart að aðdáendur Apple fögnuðu iPhone, en margir aðrir voru efins. Forstjóri Microsoft gerði gys að iPhone og Nokia fannst fráleitt að einhverjir tölvukallar þættust vita eitthvað um símabransann. Fjölmargir sérfræðingar töldu fráleitt að selja slíkt tæki án þess að hafa meira en einn takka.

Gleymum ekki hinu heldur, að ýmsir aðrir höfðu spreytt sig á slíku tæki. Apple hafði sjálft reynt sig án árangurs við lófatölvuna Newton árið 1992, Blackberry var alls ráðandi þegar iPhone kom fram, Palm Treo var ekki slæm lófatölva, það var hægt að vafra á netinu með Nokia 95 eða taka tiltölulega góðar myndir á Sony Ericson K800i.

En í iPhone var þessi byltingarkenndi snertiskjár, sem allir féllu fyrir, og takmörkuð sem fyrsta útgáfan var, þá gerði hún allt sem hún gerði afskaplega vel, var viðmótsþýð og auðskiljanleg að hætti Apple. Og samþætti allt það, sem aðrir höfðu áður reynt með takmörkuðum árangri.

Sem fyrr segir vissi Jobs að hann væri með byltingarkennt tæki í höndunum, bara ekki alveg hversu byltingarkennt.

Það var sem netsamskiptatæki, sem iPhone sló í gegn, sérstaklega eftir að App Store, sölutorg appa frá öðrum framleiðendum, var opnað og tugþúsundur forritara lögðu til milljónir appa (um 2,2 milljónir virkra appa sem stendur).

Nánar má lesa um málið í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »