Arfgerð sem verndar gegn riðuveiki loksins fundin

Riðuveiki hefur leikið margan sauðfjárbóndann grátt í gegnum tíðina.
Riðuveiki hefur leikið margan sauðfjárbóndann grátt í gegnum tíðina. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Arfgerð sem verndar gegn riðuveiki hefur nú fundist í sauðfé á Íslandi og er því áralangri leit að slíkri arfgerð lokið. Arfgerðin fannst í hrútnum Gimsteini á bænum Þernunesi í Reyðarfirði og er vonast til þess að það finnist í fleira sauðfé víðs vegar um landið.

Þetta kom fram á blaðamannafundi Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins og Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum fyrir hádegi í dag. 

Arfgerðin sem fannst er svokallað ARR-arfgerð og er alþjóðlega viðurkennd sem verndandi gegn riðu. 

Arfgerðin fannst í einum hrúti, eins og áður sagði, og fimm kindum; Hallgerði, Njálu-Brennu, Njálu-Sögu, Katrínu og Svandísi. 

Á fundinum var hent gaman að því að ein kindin úr þessum sögulega hópi fjár heiti eftir ráðherra landbúnaðarmála. Katrín heitir svo eftir flokkssystur hennar og forsætisráðherra Katrínu Jakobsdóttur.

Svandís Svavarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra eru …
Svandís Svavarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra eru væntanlega himinlifandi yfir nöfnum sínum í Þernunesi í Reyðarfirði. Samsett mynd

Gríðarlega merkileg tíðindi

Verði hægt að ala undan fé með arfgerðina sem verndar gegn riðu verður hægt að útrýma riðu í íslensku sauðfé. 

Eftir um tveggja áratuga leit að arfgerðinni voru sauðfjárbændur á Íslandi farnir að leita nýrra leiða til þess að reyna að vinna gegn útbreiðslu riðu. Til greina kom að flytja inn sauðfé með samskonar verndandi arfgerðar en nú er það óþarft þar sem arfgerð hefur fundist hér á landi.

Miðað við rannsóknir erlendis má gera ráð fyrir að eftir um tvo áratugi geti arfgerðin orðið ráðandi í sauðfjárstofninum hér á landi og vandkvæði tengd riðu því úr sögunni.

Annars vegar eru það sérfræðingar á Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins og Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræðum að Keldum og hins vegar sauðfjárbóndinn Karólína Elísabetardóttir ásamt erlendum vísindamönnum sem standa fyrir rannsóknunum. Þessi rannsóknaverkefni hlutu bæði styrk úr Þróunarsjóði sauðfjárræktarinnar sem er í umsjá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins. Forsvarsmenn þessara verkefna mynduðu síðan teymi sem unnið hefur saman að leitinni,“ segir um málið í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins, sem send var út eftir hádegi.

„Þessar fréttir gefa fyrirheit um að eftir áratuga baráttu sé loksins komin leið til að vinna lokasigur á riðuveiki á Íslandi. Næstu skref eru að greina hversu útbreitt hin verndandi arfgerð er og með hvaða hætti megi nýta sér þessa nýju þekkingu í ræktunarstarfi,“ er haft eftir Svandísi Svavarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, í tilkynningunni. 

mbl.is