Tókst að yngja húðfrumur um 30 ár

Húðfruman hefur verið stækkuð með stækkunargleri. Hún er úr 53 …
Húðfruman hefur verið stækkuð með stækkunargleri. Hún er úr 53 ára konu en lítur út og hagar sér eins og úr 23 ára manneskju. Ljósmynd/BBC

Vísindamenn hafa náð að yngja húðfrumur konu, sem er 53 ára að aldri, svo þær líti út og hagi sér eins og frumur úr einstaklingi sem er 23 ára. 

BBC greinir frá því að vísindamenn í Cambridge telji að þeir geti gert það sama við aðra frumuvefi líkamanns. 

Markmið þeirra er að þróa meðferðir gegn sjúkdómum sem tengjast aldri, svo sem hjartasjúkdómum, sykursýki og taugasjúkdómum. 

Tæknin byggist á þeirri sem notuð var á kindina Dolly sem var klónuð fyrir 25 árum síðan. 

Stórt skref

Wolf Reik, sem fór fyrir rannsókninni, sagðist í viðtali við BBC vona að tæknin verði til þess að hægt verði að halda fólki heilbrigðu lengur. 

„Okkur hefur dreymt um svona hluti. Margir algengir sjúkdómar versna með aldrinum og hugsunin um að geta hjálpað fólki á þennan hátt er mjög spennandi,“ sagði Reik.

Reik sagði rannsóknina skammt á veg komna og að það væru nokkur vandamál sem þyrfti að leysa áður en hægt væri að færa rannsóknina úr rannsóknarstofu hans. 

Að sýna fram á í fyrsta skipti að hægt væri að endurnýja frumur væri þó stórt skref.

mbl.is

Bloggað um fréttina