Líklegri til að deyja úr blöðruhálskrabbameini

Krabbamein í blöðruhálskirtli er næstalgengasta krabbameinið sem greinist hjá karlmönnum.
Krabbamein í blöðruhálskirtli er næstalgengasta krabbameinið sem greinist hjá karlmönnum. Ljósmynd/Colourbox

Hverjir 10 sentímetrar sem bætast við mittismál karlmanna auka líkurnar á að þeir deyi úr krabbameini í blöðruhálskirtli um sjö prósent.

Þetta kemur fram í niðurstöðum nýrrar rannsóknar sem er sú stærsta sem hefur verið gerð á mögulegum tengslum offitu og sjúkdómsins.

Krabbamein í blöðruhálskirtli er næstalgengasta krabbameinið sem greinist hjá karlmönnum og það fjórða þegar á heildina er litið, að sögn Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. Tengsl sjúkdómsins við offitu eru þó enn óljós.

Allar rannsóknir teknar saman

Til að átta sig betur á umfangi þessarar hættu voru teknar saman allar rannsóknir tengdar málinu sem hafa verið birtar til þessa. Náðu þær yfir 2,5 milljónir karlmanna, auk nýrra gagna um rúmlega 200 þúsund menn í Bretlandi.

Með hverri fimm stiga aukningu líkamsþyngdar (BMI-stuðli), jukust líkurnar á því að deyja úr blöðruhálskrabbameini um 10 prósent, samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar, sem var birt í tímaritinu BCM Medicine.

Aurora Perez-Cornago, vísindamaður við Oxford-háskóla sem stjórnaði rannsókninni, sagði að ef menn næðu að lækka BMI-stuðulinn sinn um fimm stig myndu 1.300 færri menn deyja í Bretlandi af völdum krabbameinsins á ári hverju.

„Lykilskilaboðin eru: gerið það karlmenn, haldið ykkur í heilbrigðri líkamsþyngd,“ sagði hún við AFP.

mbl.is