Færri notendur og minna talað í heimasíma

Farsími.
Farsími. AFP

Þróun fyrri ára innan talsíma heldur áfram þar sem bæði notendum og mínútum fækkar milli ára og er fækkun viðskiptavina og mínútna aðallega hjá heimilum en ekki fyrirtækjum. Áskrifendum að heimasíma fækkar um 6,1% milli ára og mínútum fækkar um 17,2%. Síminn og Vodafone eru stærstu fyrirtækin á fjarskiptamarkaði fyrir heimasíma með rúm 88% hlutdeild í lok árs 2021.  

Þetta er á meðal þess sem fram kemur í nýrri skýrslu Fjarskiptastofu. 

Heildarfjölda farsímaáskrifta fjölgar lítillega á milli ára eða um 4,5%. Fjölgun er á samningsbundnum áskriftum, en fyrirfram greiddum áskriftum fækkar hins vegar. Fjöldi mínútna úr farsímum var 1.137 milljónir á árinu 2021, en var árið á undan 1.124 milljónir mínútna. Fjölgun mínútna á milli ára var því aðeins um 1,0%, sem líklega má rekja til minni fjarvinnu á árinu 2021 en 2020. 

M2M kortum á farsímaneti fjölgaði verulega milli ára eða úr 112.188 í 179.191 kort í lok árs 2021, en um er að ræða farsímakort þar sem tæki eru í sjálfvirkum samskiptum við önnur tæki sem á ensku kallast Machine-to-Machine eða M2M.

Gagnamagn á farsímaneti heldur áfram að aukast þótt dregist hafi úr aukningunni, en hún var um 25% milli áranna 2020 og 2021. Í farsímanetum er hlutfallslega meira gagnamagn notað í símum en í öðrum tækjum sem eru eingöngu fyrir gagnanotkun, t.d. spjaldtölvum eða 4G netbúnaði.  

Internettengingum fjölgar lítillega milli ára, en mikil aukning hefur orðið í ljósleiðaratengingum samhliða fækkun í xDSL tengingum. Í lok árs 2021 voru ljósleiðaratengingar rúm 75% allra internettenginga, alls um 107 þúsund tengingar. 

Heildargagnamagn á fastaneti jókst um rúm 20% milli ára og er um 88% gagnamagnsins vegna niðurhals en 12% vegna upphals. 

Áskrifendur með sjónvarp yfir IPTV voru 84.798 í lok árs 2021, en voru 88.109 árið á undan og hefur því fækkað um tæp 4% frá árinu á undan. 

Velta á fjarskiptamarkaði jókst á árinu 2021, tekjur af heimasíma og fastaneti fóru lækkandi en tekjur af farsímarekstri, gagnaflutningi og internetþjónustu, sjónvarpsþjónustu og annarri fjölmiðlun hækkuðu. Fjárfesting á fjarskiptamarkaði er aðallega í fastaneti, m.a. vegna lagningar ljósleiðara og farsímarekstri. 


mbl.is