Hellarnir mögulega eldri en gert var ráð fyrir

Frá einu heillegasta mannvikri á Íslandi sem hefur verið rannsakað …
Frá einu heillegasta mannvikri á Íslandi sem hefur verið rannsakað hingað til. Ljósmynd/Lísabet Guðmundsdóttir

„Maður á eiginlega ekki orð til að lýsa þessu,“ segir Kristborg Þórsdóttir fornleifafræðingur um upplifun sína af því að standa inn í einu heillegasta víkingaaldar mannvirki sem hún leiðir nú rannsókn á í Odda á Rangárvöllum. Um er að ræða manngerða hella sem talið er að hafa verið grafnir út á miðri tíundu öld. 

„Stærðin á þessum mannvirkjum er svo mikil, það hafa ekki verið rannsökuð svona stór mannvirki og alls ekki frá þessum tíma á Íslandi.“

Í prufuskurði árið 2018 fannst uppistandandi manngerður hellir á svæðinu sem þótti merkilegur fundur. Var talið mikilvægt að halda áfram rannsókn á honum en síðar kom í ljós mun stærri hellir sem var samtengdur honum sem nú er verið að rannsaka.

„Núna er bara búið að opna þennan stóra hrunda helli að hluta sem litli hellirinn okkar tengdist inn í. Við eigum ennþá eftir að grafa lengra niður, við erum bara að vinna í að gera þessar aðstæður öruggar, þetta er orðið mjög djúpt og ótryggt bergið. Það hefur tekið svolítinn tíma.“

Kristborg segir mikið af nýjum og mikilvægum upplýsingum vera að koma í ljós um tæknina sem Íslendingar bjuggu yfir á þessum tíma og hefðirnar sem voru við líði og eru jafnvel enn.

Hér má sjá fornleifafræðinga að störfum.
Hér má sjá fornleifafræðinga að störfum. Ljósmynd/Fornleifastofnun Íslands

Í kappi við tíman

Kristborg segir rannsóknina einnig einstaka að því leytinu til hvað aðstæður eru krefjandi á vettvangi. Huga þarf vel að öryggi á vettvangi, sérstaklega meðal þeirra sem grafa út hellinn sem er á þó nokkru dýpi. 

„Þetta berg er svo gljúpt að það molnar niður fyrir augunum á okkur,“ segir Kristborg.

„Við erum bara með takmarkað fjármagn og tíma og svo veit maður aldrei hvað gerist á næsta ári. Kannski getum við haldið áfram, kannski ekki. Svo alltaf milli ára tapast eitthvað af upplýsingum, varðveislan versnar.“

Þverfagleg rannsókn

Rannsóknin sem hópurinn stendur í núna hefur staðið yfir frá árinu 2020 og er hún hluti af Oddarannsókninni sem er þverfagleg rannsókn á Odda. Markmið hennar er að varpa ljósi á ritmenninguna þar á miðöldum og er árhersla lögð á 11. og 12. öld, þegar veldi Oddaverja stóð sem hæst. Gjóskulög benda þó til að hellirinn sem nú er skoðaður, hafi verið grafinn fyrir þann tíma.

Áður en rannsóknin hófst var fjöldi áður óþekktra minja skráður, þar á meðal fjöldi manngerðra hella og fornar minjar við Kamphól.

Notkun hellanna er ekki talin hafa staðið yfir í langan tíma þar sem sandsteinninn sem þeir voru grafnir í er gljúpur. Entust þeir því illa. 

Ljósmynd/Fornleifastofnun Íslands

Mikið kerfi af hellum

Að sögn Kristborgar gæti hellirinn sem nú er rannsakaður verið Nautahellir sem nefndur er í Jarteinabók Þorláks helga biskups. Í frásögn biskupsins kemur fram að Nautahellir Odda hafi hrunið og eitt naut af tólf hafi verið bjargað út úr rústunum fyrir áheit á Þorlák.

„Þó þetta sé eldra en það þá er líklegt að þetta hafi verið notað fyrir búfénað. Hvort það hafi verið þessi tilteknu naut, vitum við ekki. En notkunarsaga er náttúrulega lengri en við höfum náð að rekja ennþá.“

Segir hún þetta mun flóknari saga en virðist við fyrstu sýn. 

„Þetta eru gríðarlega stór mannvirki og ótrúlega mikið kerfi af hellum sem við erum bara rétt byrjuð að átta okkar á.“

Bergið ótryggt

Eins og áður sagði hefur komið í ljós að hellirinn hafi verið grafinn fyrir 1100. Að sögn Kristborgu þykir ekki ólíklegt að hann hafi verið kominn úr notkun snemma á 12. öld. Kom það rannsóknarhópnum nokkuð á óvart. 

„En svo er þetta lengri og flóknari saga hérna í notkun þessara hella og við erum aðeins byrjuð að sjá það en þetta er svo umfangsmikið að við getum aðeins skoðað lítinn hluta núna. Svo þyrfti að ráðast í miklu miklu stærri rannsókn hérna með miklu meiri mannskap ef það á að fá einhvern botn í þetta og rekja þessa sögu alveg, þessa notkunarsögu hellanna hérna.“

Ljósmynd/Fornleifastofnun Íslands
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert