Mikilvægar kenningar

Kenningar tveggja manna snúast um grunngildi, sem geta ráðið úrslitum um það hvernig börnum og unglingum vegnar í skóla. Hermundur Sigmundsson og Einar Gunnarsson fjalla í grein sinni um kenningar K.A. Ericssons um markvissa þjálfun og kenningar Mihalys Csikszentmihalyis um flæði:

Í skólakerfinu er mikilvægt að vanda til verka og nálgast nám barna með því að nota aðferðir sem hafa reynst vel og byggja á viðurkenndum vísindum. Íslenskt menntakerfi hefur á undanförnum árum þróast og breyst í takti við örar breytingar samfélagsins, og kröfur nútímans eru öðruvísi í dag en áður. Til að mynda hefur tilkoma tækninnar gjörbreytt umhverfi kennara og nemenda í skólum landsins og hlutirnir gerast hratt. Námsleg staða of margra nemenda er ekki góð og gæti hæglega verið betri og benda tölur úr alþjóðlegu PISA-menntarannsókninni til þess að íslensk ungmenni séu verr stödd í dag en fyrir 20 árum hvað grunnfærni í lestri, stærðfræði og náttúrufræði varðar. Þegar hraðinn er mikill og hlutir breytast á skömmum tíma í skólakerfinu er kannski gott að staldra við og ígrunda grunngildin án þess að það þurfi að hafa slæm áhrif á jákvæðar breytingar nútímans á tilvist barna í skólum landsins.

Sumar aðferðir í námi barna hafa reynst vel og eru byggðar á sígildum, viðurkenndum vísindum sem hafa fyrir löngu sannað gildi sitt og virka. Þetta eru aðferðir sem margir kannast við, eru ekki ýkja flóknar og flestir geta mátað sig við þær. Þessar aðferðir hafa kannski gleymst í þeim hraða sem einkennir samfélag nútímans og tími til kominn að huga betur að grunnfærni nemenda í íslenskum skólum og með því getum við eflt enn frekar færni nemenda í að takast á við flóknar áskoranir nútímans.

Hermundur Sigmundsson, prófessor í líffræðilegri sálfræði, og starfar hjá Norska …
Hermundur Sigmundsson, prófessor í líffræðilegri sálfræði, og starfar hjá Norska tækni- og vísindaháskólanum og Rannsóknasetri fyrir menntun og hugarfar, Háskóla Íslands. mbl.is/Kristinn Magnússon


Skólakerfið getur nýtt sér margar kenningar og rannsóknir til að efla nám nemenda og er sagt frá tveimur hér. Önnur kenningin er eftir K.A. Ericsson og fjallar um „deliberate practice“ eða markvissa þjálfun og hin er eftir Mihaly Csikszentmihalyi sem fjallar um „flow“ eða flæði. Kenningarnar eru tvær af nokkrum grunnkenningum sem notast er við í verkefninu „Kveikjum neistann“ í Vestmannaeyjum.

Markviss þjálfun

K.A. Ericsson (1947-2020) kom fram með sína kenningu um markvissa þjálfun, sem er þýðing okkar á „deliberate practice“, árið 1993. Tilvísanir í þá vísindagrein eru orðnar 13.295. Sem sýnir í hversu mörgum vísindagreinum og bókum hefur verið vitnað í þá grein. Í kenningunni er lögð mikil áhersla á að öll þjálfun sé markviss og á bak við markmið, sem sett eru, liggur nákvæmt mat á hvað viðkomandi einstaklingur þarf að bæta. Stöðumatið eða staðan er því algjört lykilatriði að mati Ericsson. Ef við horfum á skólann í þessu samhengi er gífurlega mikilvægt að kennsla og nám sé miðað út frá stöðu hvers nemanda. Þegar matið liggur fyrir er farið af stað með markvissa þjálfun í ákveðinn tíma á atriðum sem kortlögð hafa verið. Eftir þjálfunina fer fram nýtt stöðumat og nemandinn, foreldrar og kennarar fá þá nákvæmar upplýsingar um stöðu nemandans eftir þjálfunina. Kennarar og foreldrar vinna þá eftir ferlinu: Stöðumat – eftirfylgni – markviss þjálfun – stöðumat. Nemendur og foreldrar finna vel fyrir árangri í skólanum ef þessu ferli er fylgt eftir og árangri fylgir alltaf góð tilfinning ásamt því að árangur getur eflt sjálfstraust. Með þessu ætti nemandinn að byggja upp þekkingu og færni, skref fyrir skref. Ericsson er með 97.821 tilvitnun.

Flæði

Mihaly Csikszentmihalyi (1934-2021) kom fram með sína kenningu árið 1975 um flæði („flow“) í bók sinni: Beyond Boredom and Anxiety. Segja má að aðalinntak kenningarinnar sé að ef áskoranir eru í samræmi við færni einstaklingsins þá kemst einstaklingurinn í svokallað flæði. Flæði lýsir sér oft sem sjálfsgleymska, einstaklingurinn verður svo upptekinn af sínu verkefni að hann gleymir stund og stað. Þegar einstaklingur er í flæði þá eru góðar forsendur fyrir að nám eigi sér stað og hann öðlast svokallað „mastery“ sem við köllum venjulega „leikni“. Flæði hefur mjög góð áhrif á bæði sálfræðilega vellíðan (e. „flourishing“) og árangur. Csikszentmihalyi er með 158.528 tilvitnanir.

Einar Gunnarsson, aðstoðarskólastjóri Grunnskóla Vestmannaeyja.
Einar Gunnarsson, aðstoðarskólastjóri Grunnskóla Vestmannaeyja.


Í okkar rannsóknum á hvataþáttum („motivasjons faktorer“) og árangri („achievement“) er flæði einn af þeim fimm þáttum sem við skoðum. Hinir þættirnir eru gróskuhugarfar, þrautseigja, ástríða og eigin skilvirkni („self-efficacy“).

Báðar kenningarnar eru gífurlega mikilvægar fyrir alla þá sem vilja bæta sig í færni og þekkingu, sama hvert sviðið er. Þetta á við um allan aldur allt frá börnum á leikskólaaldri til eldra fólks.

Í Grunnskóla Vestmannaeyja er unnið að stóru þróunarverkefni sem kallast „Kveikjum neistann“ en í verkefninu er notast við kenningar þeirra Ericsson og Csikszentmihalyi og fleiri. Kennarar, stjórnendur, stjórnmálamenn, uppalendur og aðrir áhugasamir eru hvattir til að kynna sér kenningar sem notaðar eru í verkefninu í Vestmannaeyjum því eins og áður segir fjalla þær um skynsamlegar aðferðir sem flestir geta mátað sig við.

Annar höfunda þessa pistils, Hermundur, var svo heppinn að fá að kynnast þessum fræðimönnum persónulega. Þegar Hermundur þurfti að velja fólk til að skrifa um nám og flæði eða markvissa þjálfun í bókum sínum (Læring og ferdihetsutvikling; Ekspertise) leitaði hann til þeirra fremstu sem svöruðu já við hans fyrirspurn. Frá 1989 (Csikszentmihalyi) og 1993 (Ericsson) hafa þeir verið Hermundi fyrirmyndir sem vísindamaður, kennari, þjálfari og faðir.

Við erum ævinlega þakklátir Csikszentmihalyi og Ericsson fyrir þeirra framlag til vísindanna. Við mælum sterklega með að fólk kynni sér kenningar þeirra, bækur og vísindagreinar.

Hermundur Sigmundsson er prófessor í líffræðilegri sálfræði, og starfar hjá Norska tækni- og vísindaháskólanum og Rannsóknasetri fyrir menntun og hugarfar, Háskóla Íslands.

Einar Gunnarsson er aðstoðarskólastjóri Grunnskóla Vestmannaeyja.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert