Fólk óttast að það sofi ekki nóg

Flestir keppast við að ná nægum svefni hverja nótt, enda …
Flestir keppast við að ná nægum svefni hverja nótt, enda lífsgæði Ljósmynd/Colourbox

„Þetta á upphaf sitt í því að við hittumst nokkrir kollegar á Landspítalanum og veltum fyrir okkur á hvaða leið umræðan um svefn meðal Íslendinga væri. Maður opnar vart blað, hlustar á útvarp eða sjónvarp án þess að svefn sé þar til umfjöllunar og yfirleitt er inntakið að Íslendingar sofi allt of stutt, börn og unglingar minnst og að þetta stefni heilsu landans í voða. Í þessari umræðu er látið að því liggja að stuttur svefn orsaki sjúkdóma, sykursýki, hjartaáföll, heilaáföll og fleira,“ segir Bryndís Benediktsdóttir, prófessor við læknadeild Háskóla Íslands, en hún skrifaði í framhaldinu yfirlitsgrein í Læknablaðið þar sem skoðaður er vísindalegur grundvöllur þessara staðhæfinga.

„Þegar ég fór í gegnum vísindalegar staðreyndir fengnar úr birtum ritrýndum greinum, þá kemur fram að svefn fullorðinna á Vesturlöndum hefur ekki styst og sofa þeir nú svipað lengi og þeir hafa gert undanfarna áratugi. Svefn barna á Vesturlöndum hefur styst undanfarna öld en ekki þar með sagt að þau sofi ekki nóg. Á árunum 1905-2008 styttist svefn barna á Vesturlöndum um 0,75 mín. á ári. Við eigum eina íslenska langtímarannsókn sem náði yfir tíu ára tímabil, frá 1985 til 1995, en þar var sama fólki fylgt eftir í heilan áratug. Niðurstaðan var að svefn fullorðinna Íslendinga styttist ekki á þeim áratug, en aftur á móti styttist svefn barna og unglinga um 15 mínútur á virkum dögum og um 20 mínútur um helgar. Við veltum fyrir okkur hvers vegna þessi stytting á svefni væri og komumst að því að það var vegna þess að börn og unglingar fóru fyrr á fætur. Á þessum árum voru þjóðfélagsbreytingar, almennari þátttaka kvenna á vinnumarkaði, fleiri börn í leikskóla og skólinn varð einsetinn. Í samanburðarrannsóknum á seinni árum þar sem svefn Íslendinga, bæði fullorðinna og unglinga, hefur verið borinn saman við svefnvenjur íbúa annarra landa, er niðurstaðan alltaf sú sama. Íslendingar fara seint að sofa, vakna seinna en sofa jafn lengi og þær þjóðir sem þeir eru bornir saman við. Þessar seinu svefnvenjur eiga líklega rót sína að rekja til hnattstöðu landsins og staðsetningar í röngu tímabelti.“

Ekki heilagur sannleikur

Bryndís segir að á undanförnum árum hafi Erlingur Jóhannsson, prófessor í íþróttafræði innan HÍ, og hans teymi gert góðar rannsóknir á svefnvenjum unglinga.

„Þau hafa verið að rannsaka svefn hjá krökkum í tíunda bekk í sex grunnskólum í Reykjavík. Þau beita hlutlægum aðferðum, nota virknimæla til að mæla svefnlengd og þetta eru því lífeðlisfræðilegar mælingar en fram að því byggðust íslenskar rannsóknir eins og langflestar alþjóðarannsóknir á huglægum aðferðum, spurningalistum og svefndagbókum. Hafa verður þó í huga að svefnlengd mælist mun styttri með hlutlægum aðferðum en huglægum og ekki hægt að bera saman niðurstöður sem fást með þessum tveimur aðferðum.

Niðurstöður Erlings og hans teymis hafa verið túlkaðar á þann veg að einungis lítill hluti íslenskra unglinga nái ráðlögðum svefni samkvæmt bandarískum ráðleggingum um kjörsvefnlengd sem iðulega er vitnað til, en þar stendur að unglingar 14 til 18 ára, eigi að sofa í átta til tíu klukkustundir. Ef við skoðum hvernig þessar ráðleggingar eru unnar, þá hittist hópur sérfræðinga sem fer yfir rannsóknir sem sýna hvað fólk segist yfirleitt sofa lengi. Einnig er tekið inn hvað rannsóknir hafa sýnt um samband heilsu og svefnlengdar, og síðan mynda þau sér ákveðna skoðun. Þetta er í raun álit þessara sérfræðinga hvað fólk eigi að sofa lengi. Þessar ráðleggingar eiga ekki við ef svefnlengd hefur verið mæld með virknimæli. Þessar ráðleggingar taka auk þess aðeins til svefnlengdar eftir aldri en ekki til svefngæða, kyns eða erfða, en við vitum til dæmis að svefnlengd erfist, að sumir þurfa minni svefn en aðrir. Þess vegna er útilokað að gefa upp einhvern ákveðinn tímafjölda sem passar fyrir alla einstaklinga á sama aldri þegar kemur að svefnþörf. Þau sem sömdu og gefa út þessar ráðleggingar hafa sagt að líta eigi á þær sem mjög gróft viðmið en ekki heilagan sannleik fyrir alla einstaklinga. Þannig hefur þessi ráðlagði svefntími verið notaður gagnrýnislaust, sem var aldrei ætlunin hjá þeim sem ráðlögðu.“

Bryndís Benediktsdóttir
Bryndís Benediktsdóttir

Orsakar ekki sjúkdóma

Bryndís segir að rannsókn hafi verið gerð á svefnlengd almennings á aldrinum 1-100 ára í Hollandi, Bretlandi og Bandaríkjunum, sem rúmlega ein milljón manna tók þátt í, til að komast að því hvað almenningur sefur lengi.

„Ekki er marktækur munur á svefnlengd almennings í þessum þremur löndum. Prófað var að bera saman niðurstöðurnar við fyrrnefndar ráðleggingar og þá kemur í ljós að rúmlega helmingur unglinga sefur styttra en ráðlagt er ef huglægt mat var notað og 80% ef hlutlægt mat var notað, þ.e.a.s. virknimælir. Þetta segir okkur að fara varlega í að nota ráðleggingar um svefnlengd gagnrýnislaust, bera saman og draga ályktanir af rannsóknum, ef aðferðir sem mæla hana eru ólíkar. Hingað til hefur verið einblínt á samband svefnlengdar og heilsu en nú beinast augu fræðimanna meir að því á hvaða tímum sofið er. Lengi hefur verið vitað um slæm áhrif vaktavinnu á heilsu en þá sefur einstaklingurinn ekki í takt við sína dægursveiflu sem er mjög óhollt. Mikilvægt er að horfa til heildarmyndar þegar kemur að svefnlengd og svefntímum. Óreglulegur svefn er hluti af áhættuhegðun sem fer oft saman með lítilli hreyfingu, óhollu fæði og tengist óreglu og fíkn og þá er mikilvægt að horfa ekki bara til eins þáttar eins og til dæmis svefns. Ég vil leggja áherslu á að ekki hefur verið sýnt fram á að svefn sé að styttast í heiminum, Íslendingar sofa jafn lengi og þjóðirnar í kring, en okkar sérstaða er hvað við förum seint að sofa og vöknum seint,“ segir Bryndís og bætir við að mikilvægt sé að ekki hefur verið sýnt fram á að stuttur eða langur svefn orsaki sjúkdóma og að mjög varasamt sé að senda þau skilaboð út í þjóðfélagið að fólk sofi ekki nóg og að heilsa þess sé í hættu.

„Fólk verður skíthrætt og fer kannski upp í rúm allt of snemma þar sem það liggur vakandi og fer í framhaldi til læknis og segist verða að fá svefnlyf. Fólk er með tölvuúr á handleggnum sem segir að það fái of stuttan djúpsvefn og vill fá lausn sinna mála. Fólk leitar meira og meira í heilbrigðiskerfið af því það er svo hrætt um að það sofi ekki nóg, að það komi niður á heilsu þess. Þetta er sjúkdómsvæðing. Við verðum líka að átta okkur á að það eru miklir fjárhagslegir hagsmunir í húfi að halda fram þeirri skoðun að almenningur sé að sofa of stutt, því þá er hægt að selja alls konar tæki, meðferðir, ráðgjöf, lyf og fleira, sem margir efast um að sé rétt.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert