Íslenskt fyrirtæki breytir kínversku CO2 í metanól

Ljósmynd/Aðsend

Íslenska hátæknifyrirtækið Carbon Recycling International (CRI) mun í sumar gangsetja verksmiðju sem endurnýtir koltvísýring sem hráefni til efnavinnslu en um er að ræða stærstu verksmiðju sinnar tegundar. Þetta segir í tilkynningu frá félaginu.

Verksmiðjan, sem er staðsett í Anyang í Henan héraði í Kína og byggð fyrir kínverska iðnaðarfyrirtækið Shunly, framleiðir metanól úr koltvísýringi.

Verksmiðjan mun geta endurnýtt 160.000 tonn koltvísýrings á ári úr útblæstri en árleg framleiðslugetu hennar er 110.000 tonn af metanóli.

Metanólið er framleitt með sérstakri ETL-aðferð og mun koma í stað metanóls sem er framleitt úr kolum í Kína og mun því draga úr losun þar í landi.

Hvarfatankurinn er fylltur með efnahvötum sem stuðla að umbreytingu koltvísýrings …
Hvarfatankurinn er fylltur með efnahvötum sem stuðla að umbreytingu koltvísýrings yfir í fljótandi metanól. Ljósmynd/Aðsend

Hvarfatankur á þyngd við flugvél

Lykilbúnaður í framleiðsluferli verksmiðjunnar svokallaður hvarfatankur sem hannaður er og smíðaður eftir forskrift CRI, að því er segir í tilkynningunni.

Hvarfatankurinn er fylltur með efnahvötum sem stuðla að umbreytingu koltvísýrings yfir í fljótandi metanól.

Metanólið á síðan að nýta bæði sem eldsneyti og hráefni í margvíslegar efnavörur. Hvarfatankurinn vegur um 84 tonn, sem samsvarar fullri Boeing 737 farþegaflugvél.

Tankurinn er inni í stálgrind, tengdur með lögnum við annan búnað, meðal annars sérhæfða gasþjöppu og tæplega 70 metra háa eimingarsúlu, litlu læga en Hallgrímskirkjuturn.

Losun Kína hefur rúmlega þrefaldast frá árinu 2000, þegar hún …
Losun Kína hefur rúmlega þrefaldast frá árinu 2000, þegar hún stóð í 3,66 milljörðum tonna á ári. Ljósmynd/Aðsend

 Kína þróist í rétta átt

„Við hjá CRI hlökkum til að takast á við næsta áfanga í verkefninu, gangsetningu verksmiðjunnar sem verður framkvæmd nú í sumar.

Einnig erum við að ljúka hönnun á verksmiðju númer tvö í Kína og finnum fyrir aukinni eftirspurn víða um heim eftir okkar umhverfisvænu tækni,“ er haft eftir Ingólfi Guðmundssyni, forstjóra CRI, í tilkynningunni.

Ingólfur segir opnun verksmiðjunar mikilvæga í þróun kínversks iðnaðar, landið færist í rétta átt í umhverfismálum.

„Þetta verkefni er gott dæmi um samstarf þjóða í umhverfismálum. Það er nú ekkert því til fyrirstöðu að flýta þeirri þróun með því að auka fjárfestingar í arðsömum tæknilausnum og stórum verkefnum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.“

Losun landsins þrefaldast frá aldamótum

Kína losaði um 10,67 milljarða tonna af koltvíssýringi árið 2020 og hefur losunin farið hækkandi frá árinu 2016 samkvæmt samantekt Our World in Data.

Hefur losunin því rúmlega þrefaldast frá árinu 2000, þegar hún stóð í 3,66 milljörðum tonna á ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert