Tímamót í þróun bóluefnis gegn krabbameini

Notuð er sama tækni og við gerð bóluefnis gegn Covid-19
Notuð er sama tækni og við gerð bóluefnis gegn Covid-19 AFP

Vísindamenn hafa gert tímamótauppgötvun við þróun bóluefnis gegn krabbameini eftir að framleiðendur á bak við bóluefni Pfizer gegn Covid-19 notuðu sömu tækni til að koma í veg fyrir að briskrabbamein tæki sig upp hjá sjúklingum. The Telegraph greinir frá.

Bóluefnið, sem er sérsniðið að hverjum sjúklingi, getur virkjað ónæmiskerfið þannig að það ræðst á krabbameinsfrumur og þannig er komið í veg fyrir að þær nái að fjölga sér aftur.

Sérfræðingar á bak við Pfizer-bóluefnið þróuðu bóluefni fyrir sjúklinga með briskrabbamein í samstarfi við lækna í New York og voru niðurstöðurnar kynntar á árlegri læknaráðstefnu í Chicago um síðustu helgi. 

Helmingur laus við meinið 18 mánuðum eftir aðgerð

Helmingur þeirra sem fékk bóluefnið, eftir að hafa gengist undir skurðaðgerð, var laus við krabbameinið átján mánuðum eftir aðgerðina.

Vonir eru bundnar við að jákvæðar niðurstöður séu fyrirboði um ákveðin tímamót í meðhöndlun annarra illvígra krabbameina.

Dr. Vinod Balachandran, sérfræðingur við Memorial Sloan Kettering krabbameinsmiðstöðina í New York, segir að ólíkt öðrum ónæmismeðferðum, þá virðist mRNA bólefni hafa þann eiginleika að geta örvað ónæmiskerfið í sjúklingum með briskrabbamein.

„Við erum mjög spennt yfir þessu og fyrstu niðurstöður benda til þess að ef ónæmiskerfið svarar vel, þá verði útkoman betri.“

Bóluefnið þróað úr æxlinu

Briskrabbamein er aðeins skurðtækt í um tuttugu prósent tilfella en aðeins lítill hluti þeirra sem gangast undir aðgerð lifir í langan tíma. 

Tuttugu sjúklingar með skurðtækt briskrabbamein tóku þátt í rannsókninni. Þeir gengust undir aðgerð, þar sem æxlið var fjarlægt og sýni úr því var sent til BioNTech í Þýskalandi þar sem bóluefni var þróað fyrir hvern og einn og það sent til baka. Sjúklingarnir fengu líka ónæmismeðferð til að auka líkur á góðu svari.

Sextán sjúklingar fengu níu skammta af bóluefni níu vikum eftir aðgerðina og helmingur þeirra sýndi sterkt ónæmissvar. Átján mánuðum síðar voru þeir allir átta lausir við krabbameinið. Læknar gera ráð fyrir því að svokallaðar T-frumur sem bóluefnið virðist ná að virkja, hafi komið í veg fyrir að meinið tæki sig upp aftur.

Ekki er vitað af hverju aðeins helmingur þeirra sem fengu bóluefni mynduðu ónæmissvar, en krabbameinið tók sig aftur upp hjá sex þeirra á innan við ári. Vísindamenn rannsaka nú hverju þetta sætir.

mbl.is

Bloggað um fréttina