Lestur lykill að menntun og möguleikum

Ráðist var í verkefnið Kveikjum neistann í Vestmannaeyjum í haust. Hermundur Sigmundsson, prófessor í lífeðlislegri sálfræði, og Einar Gunnarsson, aðstoðarskólastjóri Grunnskóla Vestmannaeyja, fjalla hér um hugmyndafræði verkefnisins og árangurinn.

Verkefnið „Kveikjum neistann“ snýst um að auðvelda börnum að ná tökum á lestri og byggist á því að stöðumat, markviss þjálfun og eftirfylgni séu lyklar að framförum.

Gagnsemi lesturs er ótvíræð í vestrænu samfélagi og því betri tökum sem barn nær á lestri, því auðveldara á það með nám, auk þess sem lestur opnar nýja heima fyrir einstaklinga. Skólakerfi, sama hvar þau eru í heiminum, leggja höfuðáherslu á að börn læri að lesa og því má segja að það að geta lesið sér til gagns sé lykill að menntun og möguleikum fyrir börn og unglinga. Því er gríðarlega mikilvægt að vandað sé til verka þegar börnum er kennt að lesa. Það, að allir nemendur fái möguleika á að læra að lesa sér til gagns, skiptir sköpum fyrir einstaklinga framtíðarinnar og einnig þjóðfélagið allt.

Þriðjungur nær ekki grunnfærni

Ef litið er á stöðu ungmenna á Íslandi, kemur í ljós að meira en þriðjungur 15 ára nemenda nær hvorki grunnfærni í lesskilningi né stærðfræði. Þetta kemur fram í skýrslu UNICEF frá árinu 2020. Ef litið er til yngri barna, sýna tölur Reykjavíkurborgar frá árinu 2019 að 39% nemenda hafa ekki náð viðunandi lestrarfærni við lok 2. bekkjar. Þetta hlutfall var 33% árið 2002 og því sést að staðan fer versnandi.

Hermundur Sigmundsson, prófessor í lífeðlislegri sálfræði við NTNU í Þrándheimi …
Hermundur Sigmundsson, prófessor í lífeðlislegri sálfræði við NTNU í Þrándheimi og prófessor við Rannsóknarsetur um menntun og hugarfar, MVS, Háskóla Íslands. mbl.is/Kristinn Magnússon


En við hvað ættum við að miða í þessari tölfræði? Fræðimenn hafa með rannsóknum sínum ályktað að um 2-4% barna hafi lífeðlisfræðilegar ástæður fyrir lestrarerfiðleikum og ættu því um 95% barna að geta náð tökum á lestri og lesið sér til gagns. Þetta þýðir að ríflega 30% ungmenna á Íslandi eru nemendur sem ekki geta lesið sér til gagns en ættu að geta það ef þau fá markvissa þjálfun og eftirfylgni í gegnum skólagöngu sína. Þessi hópur nemenda, sem er allt of stór, þarf að fá athygli þeirra sem hafa með skólamál á Íslandi að gera. Vonandi tekst stjórnmálamönnum, kennurum, skólastjórnendum, foreldrum og öllum sem koma að skólagöngu barna á Íslandi að laga þessa stöðu á næstu árum og áratugum.

Viðamikið verkefni í Eyjum

Í Grunnskóla Vestmannaeyja fór af stað þróunarverkefni haustið 2021 sem kallast „Kveikjum neistann“. Eitt af markmiðum þess er að vinna á þeirri stöðu sem áður var lýst og fá fleiri nemendur til að öðlast lestrarfærni og almenna grunnfærni í skóla. Verkefnið er viðamikið og margir koma þar að en annar undirritaðra (Hermundur Sigmundsson) leiðir verkefnið í samvinnu við skólasamfélagið í Vestmannaeyjum, Vestmannaeyjabæ, Háskóla Íslands, mennta- og barnamálaráðuneytið, Bókasafn Vestmannaeyja og Samtök atvinnulífsins.

Einar Gunnarsson, aðstoðarskólastjóri Grunnskóla Vestmannaeyja.
Einar Gunnarsson, aðstoðarskólastjóri Grunnskóla Vestmannaeyja.


Upphaf samstarfs þessara aðila má rekja til ársins 2020. Þá hafði annar undirritaðra (Hermundur Sigmundsson), vegna milligöngu Tryggva Hjaltasonar formanns hugverkaráðs SI, samband við Írisi Róbertsdóttur, bæjarstjóra Vestmannaeyjabæjar, og skólastjórnendur við Grunnskóla Vestmannaeyja. Eyjamönnum leist strax vel á verkefnið og boltinn fór að rúlla. Fljótlega kom Bókasafn Vestmannaeyja af krafti inn í verkefnið og nú hafa um 5000 bækur verið flokkaðar á safninu eftir erfiðleikastigi og áhugasviði, til að börn í Vestmannaeyjum hafi tækifæri til að finna bækur sem henta þeirra áhuga og færni.

Reynslan eftir fyrsta veturinn

Nú hefur fyrsti nemendahópur verkefnisins lokið 1. bekk en höfuðáhersla þennan veturinn var lögð á lestrarfærni nemenda. Unnið var markvisst með kennurum, foreldrum og skólastjórnendum í Vestmannaeyjum að því að nemendur næðu grunnfærni í lestri eftir veturinn. Í verkefninu er stuðst við bókstaf-hljóða-lestrarkennsluaðferðina (LESTU), frá eind til heildar, ásamt markvissri þjálfun og eftirfylgni í skólanum. Þá er skipulagi skóladags nemenda breytt, þar sem m.a. hreyfing, fyrri hluta skóladagsins, er fastur liður á hverjum degi hjá nemendum (72 viðbótartímar í hreyfingu yfir allt skólaárið) og eftir hádegi fá nemendur svokallaðan þjálfunartíma. Þar fá nemendur áskoranir í lestri og stærðfræði miðað við færni sína. Þannig byggir hver og einn nemandi ofan á sína stöðu á hverjum tíma. Til viðbótar, í tengslum við breytt skipulag skóladagsins, má nefna ástríðutímana sem eru eftir hádegi þrisvar sinnum í viku. Þar hafa nemendur val um að læra smíði, myndlist, textílmennt, heimilisfræði eða tónlist. Fleiri greinar bætast við ástríðutímana á komandi árum og er ætlunin að nemendur finni sína ástríðu í einhverri grein og fá þá tækifæri til að dýpka sig í henni í skólanum.

Niðurstöður vetrarins, hvað lestur nemenda varðar, eru mjög jákvæðar. Nemendur voru prófaðir í lestri og náðu allir nemendur við lok 1. bekkjar (alls 49 nemendur) að lesa einstök orð, sem þýðir að þeir brutu lestrarkóðann eins og við köllum það. 96% nemenda gátu lesið setningar og 88% gátu lesið samfelldan texta. Norsk samanburðarrannsókn á 1. bekk sýndi að 73% nemenda gátu lesið einstök orð við lok 1. bekkjar. Eftir að nemendurnir í Vestmannaeyjum hafa lokið 2. bekk verða samanburðarhópar prófaðir á Íslandi.

Byggt á vísindum og kenningum

Aðferðir sem notaðar eru í verkefninu byggjast á mjög sterkum vísindum og kenningum sem hafa verið rannsakaðar í áratugi, m.a af undirrituðum (Hermundi Sigmundssyni). Á næstunni verður þessum kenningum gerð skil í greinaskrifum, m.a. hér í Morgunblaðinu.

Eftir fyrsta vetur verkefnisins finnur skólasamfélagið í Vestmannaeyjum fyrir því að nálgunin sem stuðst er við í „Kveikjum neistann“ hefur skapað ánægð börn, ánægða kennara, ánægða foreldra og mikil ánægja er í samfélaginu með verkefnið. Við hlökkum svo sannarlega til næsta vetrar. Þá verður nemendum og foreldrum nemenda í 2. bekk áfram fylgt eftir með nálgun „Kveikjum neistann“ verkefnisins ásamt því að nýr 1. bekkur mun nota aðferðirnar.

Hermundur er prófessor í lífeðlislegri sálfræði við NTNU í Þrándheimi og prófessor við Rannsóknarsetur um menntun og hugarfar, MVS, Háskóla Íslands. Einar er aðstoðarskólastjóri Grunnskóla Vestmannaeyja.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »